Hin kúgaða stétt

Greinar

Í baráttu þrýstihópanna um aðstöðu í þjóðfélaginu er einn fjölmennur hópur, sem oftast verður útundan og nær sjaldnast rétti sínum. Þetta eru neytendur, kúgaðasta stétt á Íslandi.

Hingað til hafa neytendur fremur lítinn stuðning haft af Neytendasamtökunum, sem hafa einbeitt sér að kvartanaþjónustu og ekki náð neinum teljandi árangri í grundvallaratriðum neytendastefnu.

Neytendur verða enn að þola lélegar og ófullnægjandi upplýsingar á umbúðum vöru um innihald hennar, meðferð og endingartíma. Undantekning er, að upplýsingar sjáist um fjölda hitaeininga, magn kolvetna, tegundir og magn rotvarnarefna, svo að dæmi séu nefnd.

Neytendur verða enn að þola, að opinberar stofnanir líti á þá sem þegna en ekki borgara. Yfirvöld telja sér enn heimilt að umgangast viðskiptamenn sína með takmarkaðri virðingu. Með vaxandi stuðningi þingmanna gera þau meiri kröfur til greiðsluhraða af hálfu viðskiptavina en tíðkast í einkarekstri.

Neytendur verða enn að þola einokunaraðstöðu framleiðenda í smásölu mjólkur og ýmissa mjólkurafurða. Á Reykjavíkursvæðinu verða þeir víðast hvar að verja sérstökum tíma til að fara í sérverzlanir til að afla þessara afurða.

Neytendur verða enn að sæta því, að fulltrúar launþegasamtaka sitji í sexmannanefnd sem fulltrúar neytenda og láti það hvað eftir annað viðgangast, að búvöruverð hækkar úr hófi fram.

Neytendur verða enn að sæta úreltu fyrirkomulagi verðlagseftirlits, sem er til þess fallið að svæfa tilfinningu neytenda fyrir verði og gæðum. Höftin á þessu sviði valda því einnig, að til landsins er keypt óhæfilega dýr vara, aðeins til þess að verzlunin geti fengið nógu margar krónur úr oft lágri prósentuálagningu.

Neytendur verða enn að sæta því, að lög um varnir gegn einokun og hringamyndun hafa ekki verið sett, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá átt. Neytendur verða enn að sæta því, að lög um rannsóknir á sviði neytendaverndar hafa ekki verið sett, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Neytendur hafa því ekki aðgang að haldgóðum og hlutlausum upplýsingum um verð og gæði vöru þeirrar, sem á boðstólum er.

Þá sjaldan sem húsmæður rísa upp gegn einhverjum þætti þessarar kúgunar, eru þær ataðar auri í Tímanum og Þjóðviljanum. Tíminn er á móti hagsmunum neytenda, af því að þeir rekast stundum á hagsmuni bænda. og Þjóðviljinn er á móti hagsmunum neytenda, af því að neytendastefna mótast oftast af sjálfstæðri, borgaralegri hugsun, andstæðri kúgun af hálfu hins opinbera, sem hefur tilhneigingu til að líta á borgarana sem þegna.

Hagsmunir neytenda eru almenns eðlis og sjaldnast mjög áþreifanlegir, þegar valdamenn þurfa að taka ákvarðanir. Stjórnmálamenn hlaupa gjarnan á eftir háværum sérhagsmunahópum og láta allt eftir þeim. Landbúnaðurinn er gott dæmi um velgengni slíkra sérhagsmunahópa, sem eru vel skipulagðir, óprúttnir og harðir í horn að taka.

0g reynslan sýnir, að áhugi stjórnmálamanna á hagsmunum neytenda er að miklu leyti sýndarmennska. Neytendur verða að vakna til vitundar um mátt sinn og gerast harðir í horn að taka, ef þeir vilja fá stjórnmálamennina til að vinna fyrir sig.

Jónas Kristjánsson

Vísir