Ég er bókstaflega “at the end of the road”, því að þjóðvegur 345 endar á skemmudyrunum hjá mér. Þetta er inni á heiðum, en var í sæmilegri umferð fyrrum, þegar benzín fékkst fyrir slikk. Þá dunduðu menn á sumrin við að aka alla þjóðvegi landsins. Nú er rétt verð á benzíni og menn eru hættir örvæntingarakstri um alla þjóðvegi. Fjöldi bíla í U-beygju við skemmudyr hefur minnkað úr tíu niður í einn bíl á dag. Hér er líka engin greiðasala, nema fyrir hross, eða gisting, nema fyrir hross. Á Kaldbak er bara sinnt um hross. Hér eru bara gljúfur og engar jeppaslóðir til að vísa fólki leiðir.
