Heimskan er lífseigur fugl, sem skýtur upp kollinum á ótrúlegustu og hæstu stöðum. Brezkir embættismenn þykjast nú núa saman höndum af ánægju yfir því, að Íslendingar segi upp stjórnmálasambandi við Breta. Þeir segja Íslendinga munu tapa meira á því. Mikið óskaplega geta þessir menn verið skammsýnir, svo sem öll meðferð landhelgismálsins sýnir.
Auðvitað hafa Bretar sára þörf fyrir að koma sér sjálfir upp 200 mílna auðlindalandhelgi. Þeim væri nær að sinna slíku lífshagsmunamáli en að gera sig að glæpamönnum hér norður í höfum. Í atkvæðagreiðslu á hafréttarráðstefnunni á næsta ári mun koma fram, að rúmlega tveir þriðju hlutar ríkja heims fylgja 200 mílna auðlindalandhelgi. Eftir það er tilgangslítið fyrir Breta að vera í nýlenduveldisleik á Íslandsmiðum.
Brezk flotayfirvöld og stjórnvöld hafa hagað sér eins og skepnur í landhelgismálinu. Mælirinn er löngu fullur. Við slítum nú stjórnmálasambandi við brezk stjórnvöld, ekki til að hefna okkar á efnahagslegu sviði, heldur til að sýna þeim og umheiminum fyrirlitningu okkar á framferði þeirra. Um leið gefum við til kynna, að leiðum til samkomulags í fiskveiðideilunni hefur endanlega verið lokað.
Við skulum svo leyfa sögunni að upplýsa, hvaða árangri Bretar munu ná með stríðsleik sínum á Íslandsmiðum. Ætli niðurstaðan verði ekki sú, að þeim hefði verið nær að semja friðsamlega í tæka tíð. Þá hefðu þeir átt kost á margvíslegum undanþágum. En heimskan ríður ekki við einteyming. Hún drottnar í stjórnarráðum og ríkisstjórnum sem annars staðar. Hún er eins konar Haig hershöfðingi í landhelgisstríði Breta.
Jónas Kristjánsson
Vísir