Mikið er rætt um dreifingu valdsins í þjóðfélaginu um þessar mundir. Hvarvetna breiðist út áhugi á að stöðva núverandi þróun í átt til miðstjórnarvalds og framkvæma hina gömlu hugsjón valddreifingar að einhverju leyti.
Einn af mikilvægari þáttum dreifingar valdsins er fólginn í að færa verkefni af herðum ríkisvaldsins yfir á herðar sveitarfélaganna og samtaka þeirra. Þetta er sá þáttur valddreifingarinnar, sem einna mest hefur verið ræddur að undanförnu.
Í þessum umræðum hafa komið fram hin haldbeztu rök fyrir því, að eðlilegt sé og nauðsynlegt, að fjármagn hins opinbera og ákvörðunarvald þess sé fært heim í héruðin. Þetta er unnt að gera á mörgum sviðum, í byggingu og rekstri skóla, hafna, félagsheimila, íþróttamannvirkja, veitukerfa og læknamiðstöðva, svo að nokkur mikilvæg dæmi séu nefnd.
Meginatriðið er að færa tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga, leggja niður tekjuskattinn og auka útsvarið í staðinn .Menn mundu þá borga skattinn til eigin skóla, hafnar eða læknamiðstöðvar og hefðu fremur en ella á tilfinningunni, að skatturinn væri til nytsamlegra þarfa.
Margs þarf auðvitað að gæta við slík verkaskipti. Sveitarfélög munu í mörgum tilvikum þurfa að takast tvö eða fleiri saman á við verkefnin eða fela þau jafnvel landshlutasamtökum sínum. Þess vegna er nauðsynlegt að marka skýrar réttarstöðu slíkra samtaka og finna þeim beinna lýðræðisform.
Ríkið mun eftir sem áður hafa það verkefni að efla jafnvægi í byggð landsins, halda uppi byggðastefnu. Þess vegna þarf ríkið að hafa nokkurt fjármagn til jöfnunar á aðstöðu, svo sem til að kosta heimavistir skóla og taka þátt í kostnaði við gerð hafna og félagslegra mannvirkja í sveitarfélögum, sem ella yrðu undir í samkeppninni við öflugu sveitarfélögin. En í öllum slíkum tilvikum á framkvæmdin að vera í höndum heimamanna sjálfra.
Rikið mun ennfremur þurfa að þjónusta framkvæmdirog rekstur á vegum sveitarfélaganna, að svo miklu leyti sem þau vilja ekki fá þjónustuna hjá einkaaðilum. Rikið þarf t.d. að kosta skólarannsóknir og margvíslegar framkvæmdaáætlanir.Slík þjónusta er tiltölulega ódýr, miðað við sjálfar framkvæmdirnar og reksturinn, og sveitarfélögunum er í sjálfsvald sett, hvort þau notfæra sér hana eða ekki. Ríkið gæti raunar selt þessa þjónustu til að fjármálahlið verkaskiptingarinnar flækist ekki.
Auðvitað verður ríkið að fylgjast með því, að sveitarfélög sem aðrir aðilar uppfylli settar gæðakröfur í byggingu og rekstri stofnana sinna. Og ríkið verður að hafa vald til að knýja fram slíkar gæða kröfur. Það breytir ekki því, að framkvæmdirnar og fjármagnið er í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Til þess að halda fjármálaskiptingunni hreinni væri hugsanlegt, að sveitarfélögin greiddu ríkinu fyrir slíkt eftirlit.
Ef vel er að málunum staðið, er unnt að flytja veigamikil verkefni úr ríkisbákninu og fela þau sveitarfélögunum, sem standa miklu nær einstaklingunum sjálfum og þekkja betur þarfir fólksins.
Jónas Kristjánsson
Vísir