Víðtækt samkomulag hefur náðst í borgarstjórn Reykjavíkur um nýja útfærslu byggðarinnar í borginni til norðausturs að Úlfarsfelli. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks greiddu atkvæði með þessari stefnu, sem kynnt var á skipulagssýningu á Kjarvalsstöðum skömmu fyrir síðustu áramót.
Fulltrúar Alþýðubandalagsins greiddu einir atkvæði gegn þessari tillögu og vildu í hennar stað, að Reykjavík gengi til samstarfs við sveitarfélögin sunnan borgarinnar um vöxt höfuðborgarsvæðisins til suðurs. Ekki er ljóst, hvaða brögð eru þarna í tafli Alþýðubandalagsins, en langsótt virðast þau í fljótu bragði.
Þegar er til samstarf Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga á svæðinu um skipulagið. Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður munu halda áfram að stækka. Höfuðborgarsvæðið mun því þenjast út til suðurs í öðrum lögsagnarumdæmum um leið og það þenst út til norðurs í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Vissulega er stefna Alþýðubandalagsins í samræmi við gamla aðalskipulagið frá 1965. En þá vissu menn ekki, að borgin sjálf mundi þenjast eins mikið út og raun hefur orðið á. Þá átti Breiðholt að endast sem byggingasvæði fram undir aldamót. En nú er ljóst, að þar mun lóðaúthlutun ljúka fyrir árið 1980.
Að óbreyttu ástandi yrði Reykjavík uppiskroppa með byggingalóðir eftir tvö eða þrjú ár. Og sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur hafa ekki afl til að taka í einu vetfangi við hlutverki Reykjavíkur í útvegun byggingalóða. Og svo vel vill til, að Reykjavík á við Korpúlfsstaði og sunnan Úlfarsfells ákjósanlegt byggingarsvæði.
Á hinu nýja svæði eiga 50.000 manns að geta búið í framtíðinni. Það er helmingi meiri fjöldi en gert er ráð fyrir, að búi í Breiðholti fullbyggðu, 25.000 manns. Samtals jafngilda þessi tvö svæði meira en tvöföldun íbúafjölda Reykjavíkur.
Hið nýja svæði endist samt ekki takmarkalaust. Breiðholt dugði í 15 ár. Ef til vill verður unnt að láta Úlfarsfellssvæðið endast í 25 ár eða rétt fram yfir næstu aldamót. En þá verður komið að núverandi mörkum lögsagnarumdæmis borgarinnar, því að enginn telur ráðlegt að stækka borgina meira í átt til heiða en orðið er.
Meðan Úlfarsfellssvæðið er að byggjast upp verða sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur að búa sig undir að taka við hlutverki Reykjavíkur í lóðaúthlutun. Þau ráða ekki við það núna, þótt þeim vaxi stöðugt fiskur um hrygg. Reykjavík verður enn að ráða ferðinni um sinn.
Skipulagssýningin á Kjarvalsstöðum bar þess merki, að nýja skipulagið á Úlfarsfellssvæðinu er langsamlega vandaðasta skipulag, sem Reykjavík hefur staðið að. Möguleikar landnýtingar hafa þar verið skoðaðir mun betur en annars staðar hefur verið gert. Vonandi tekst jafnvel til í deiliskipulagi einstakra þátta svæðisins.
Borgarstjórn hefur nú samþykkt heildarskipulag Úlfarsfellssvæðisins og þar með stigið meiri háttar heillaspor í þróunarsögu borgarinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið