Aðförin að Dagblaðinu er umfangsmesta tilraun til heftingar á tjáningarfrelsi, sem Íslendingar hafa kynnzt á síðustu áratugum. Um hana er breið pólitísk samstaða, enda hefur Dagblaðið frá upphafi verið stjórnmálamönnum úr öllum flokkum mikill þyrnir i augum
Frumkvæðið kemur frá aðstandendum Vísis, sem taka á sig miklar skuldbindingar til þess að koma lagi á keppinaut, sem hefur fyrir löngu hlaupið Vísi af sér. Þeir greiddu á einum degi fjórar og hálfa milljón upp í óreiðuskuldir Alþýðublaðsins og taka nú á sig að greiða eina og hálfa milljón á mánuði, rekstrarhalla blaðsins.
Skilyrðið fyrir þessari gjafmildi gagnvart Alþýðuflokknum var, að hann sæi um, að meirihluti stjórnar Blaðaprents segði Dagblaðinu upp prentun með svo litlum fyrirvara, að útilokað væri fyrir blaðið að afla sér í tæka tíð hliðstæðrar prentunar með öðrum hætti.
Alþýðuflokksmenn sáu siðleysið í þessu og fóru i fyrstu undan i flæmingi. Alþýðublaðið hætti að koma út vegna fjárskorts. En um síðir varð freistingin of sterk og aðstandendur blaðsins tóku að sér að sjá um, að Blaðaprent lokaði á Dagblaðið um næstu mánaðamót.
Tilmæli Alþýðuflokksmanna fengu góðan hljómgrunn hjá öðrum stjórnmálaöflum, sem eiga aðild að Blaðaprenti. Að sögn Kristins Finnbogasonar, framkvæmdastjóra Tímans, fól stjórn blaðsins, með Ólaf Jóhannesson ráðherra i broddi fylkíngar, honum að taka þátt í aftökusveitinni.
Í svona málum skiptir minnstu, hvar í flokki stjórnmálamennirnir standa. Undir flestum þeirra er hvort sem er sami rassinn. Hinir sameiginlegu hagsmunir þeirra eru sterkari en ágreiningsefni þeirra. Og þeir eru sammála um, að óþægilegt sé og ómögulegt sé að hafa yfir höfði sér Dagblaðið.
Hatur Vísismanna og hagsmunir pólitíkusa sameinuðust i þessari aðför. Sumir fulltrúarnir í stjórn Blaðaprents tóku þó með tregðu þátt i henni, enda höfðu allir stjórnarmennirnir marglýst yfir því, að Dagblaðið skyldi fá nægan aðlögunartíma til að byggja upp eigin prentsmiðju. Þeim þótti miður, að flokksforingjarnir skyldu knýja þá til að ganga á bak orða sinna.
Sumir þeirra vissu líka undir niðri, að Dagblaðið hefur verið bezti viðskiptavinur Blaðaprents. Blaðið hefur jafnan greitt prentunina á gjalddögum og greiddi í desember einum l,6 milljón króna álag umfram önnur dagblöð. Á aðeins tveimur mánuðum, í október og nóvember, bætti Dagblaðið rekstrarstöðu Blaðaprents um 2 milljónir.
Annað mál er svo, hvort mennirnir á gullkistum Vísis og stjórnmálamennirnir hafa árangur sem erfiði. Þeir hafa vissulega sett Dagblaðið í mikinn vanda, sem erfitt verður að leysa. Starfsmenn blaðsins hafa þegar gert margvíslegar ráðstafanir, sem stefna að því að hindra, að útgáfa blaðsins stöðvist út af aðförinni að blaðinu.
Það mun svo koma í ljós á næstu vikum, hvernig okkur gengur þessi viðleitni. Í baráttunni er okkur mikill styrkur að því að vita af þúsundum meðeigenda og tugþúsundum lesenda, sem standa þétt að baki okkar og styðja okkur með ráðum og dáð.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið