Ritskoðun stríðsfrétta hefur harðnað. Martin Bell kvartar í Guardian um, að brezki herinn í Afganistan sé farinn að ritskoða fréttir BBC. Herinn kippti burt myndum af óbreyttum borgurum, sem urðu fyrir hernaði Breta. Síðan hindraði hann fréttir af átökunum í Musa Kala. Til skamms tíma lét hann nægja “embedding”, sem gerir fréttamenn að málsaðilum í stríði. En nú þarf brezki herinn að leyna skelfilegum afleiðingum tilgangslauss hernaðar í landinu. Fréttabann er talin vera heppileg leið, einkum bann á myndskeiðum. Þetta eru merki um, að brezki herinn sé kominn í vandræði í Afganistan.
