“Stjórnarskrárnefnd hefur engum tillögum skilað og virðist að mestu óstarfhæf”, segir allsherjarnefnd sameinaðs alþingis í greinargerð með tillögu um, að stjórnarskrárnefndin verði sett af.
Hin umdeilda nefnd lýtur forustu Hannibals Valdimarssonar, fyrrverandi ráðherra. Hún var skipuð í tíð vinstri stjórnarinnar árið 1972 til að gera athugun á hugsanlegum breytingum á stjórnarskránni.
Stjórnarskrárnefnd hefur sætt mikilli gagnrýni innan þings og utan fyrir seinagang. Gagnrýnin hefur einkum magnazt síðustu fjögur árin og nær nú hámarki í tillögu allsherjarnefndar.
Gagnrýnin hefur fyrst og fremst beinzt gegn Hannibal formanni. Samnefndarmenn hans og aðrir hafa hvað eftir annað krafizt þess, að hann kallaði til funda í nefndinni, en Hannibal hefur jafnan farið undan í flæmingi.
Heilu árin hafa liðið, án þess að fundur væri haldinn í stjórnarskrárnefnd. Nú er til dæmis liðið á annað ár síðan haldinn var síðast fundur í henni. Augljóst er, að með slíkum vinnubrögðum er ekki verið að samræma sjónarmið og finna niðurstöður.
Tregða Hannibals hefur skapað mikið og hættulegt tómarúm, einkum að því er varðar kosningar og kjördæmaskipun. Hin sex ár aðgerðaleysis nefndar hans hafa þingmenn og almenningur verið að átta sig á, að lýðræði er mjög skert á þessum sviðum.
Litið hefur dagsins ljós hver tillagan á fætur annarri um kjördæmaskipan, kosningar og starfshætti alþingis. Allar þessar tillögur hafa verið svæfðar með tilvísun til þess, að stjórnarskrárnefnd ynni að þessum málum.
Á þessum tíma hefur hið óvenjulega gerzt, að ungliðasamtök þriggja stjórnmálaflokka hafa komið sér saman um ágætar tillögur um, að hér verði tekið upp svokallað írskt kerfi í alþingiskosningum. Það kerfi þykir hafa tekizt vel, enda samræmir það persónulegar kosningar og listakosningar.
Saminn hefur verið ýtarlegur rökstuðningur fyrir þessari tillögu. Ennfremur hefur verið saminn ýtarlegur rökstuðningur fyrir bráðabirgðalausn, sem hægt væri að nota á meðan tillögur um nýja stjórnarskrá væru í meðförum. Sú lausn fólst annars vegar í óröðuðum framboðslistum og hins vegar í minnkun misréttar atkvæða eftir landshlutum um tæpan helming.
Starfsleysi stjórnarskrárnefndar Hannibals hefur drepið allar þessar tillögur, þar á meðal hinar mörgu tillögur, sem komu í vetur fram á alþingi frá einstökum þingmönnum og hópum þingmanna.
Enginn hefur getað skýrt, hvers vegna Hannibal leggur svona mikla áherzlu á að standa í vegi ákaflega brýnna mannréttinda. Þegar Dagblaðið hefur spurt hann sjálfan, hefur hann gefið loðin svör, einkum útí hött.
Hann hefur sagt, að stjórnarskrárbreytingar séu vandasamt verk og að skoðanir greini á um fjöldamörg atriði. Það taki langan tíma að sætta sjónarmiðin og komast að niðurstöðu. Slíkt verk verði ekki unnið á örfáum árum.
Forsenda þess, að unnt sé að jafna raunverulegan eða ímyndaðan ágreining, er að menn hittist. Og það hefur Hannibal einmitt komið í veg fyrir.
Tillaga þingmanna allra flokka í allsherjarnefnd er því rassskellur, sem Hannibal á inni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið