“Alþýðuflokkinn skorti viljann til samstarfs”, segir aðalfyrirsögn forsíðu Þjóðviljans í gær. “Íhaldssemi Alþýðubandalagsins við óraunhæf sjónarmið eyðilagði myndun vinstri stjórnar”, segir aðalfyrirsögn forsíðu Alþýðublaðsins þennan sama dag.
Þessar fyrirsagnir eru dæmigerðar fyrir þær hnútur,sem fljúga um borð á vinstri væng stjórnmálanna um þessar mundir. Viðræðurnar um myndun vinstri stjórnar enduðu eins og þær byrjuðu, – með gagnkvæmu skítkasti Alþýðuflokks og Alþýðubandalags.
Menn eiga erfitt með að átta sig á, hvað gerðist raunverulega á viðræðufundum vinstriflokkanna. Lýsingar þátttakenda stangast á í mikilsverðum atriðum og síðan væna þeir hvorir aðra um lygar. Menn geta því verið fegnir, að samkomulag tókst ekki um myndun stjórnar, því að hún hefði orðið ein versta ormagryfjan í stjórnmálasögu Íslendinga.
Það var vel við hæfi, að viðræðurnar skyldu springa á skrípamáli, sem hafði ekkert efnislegt gildi. Deilan um samráðin við aðila vinnumarkaðarins er dæmi um sjónarmið, sem menn taka upp, þegar þeir þurfa að láta viðræður fara út um þúfur. Vitanlega var hægt að ná samkomulagi um slíkt form á samtölum við forustumenn vinnumarkaðarins, að allir.gætu sætt sig við það.
Meiri reisn hefði verið á því að láta tilraunina til stjórnarmyndunar brotna á einhverju raunverulegu og efnislegu ágreiningsefni eins og varnarmálunum. Þar stönguðust ,rækilega á sjónarmið Alþýðubandalagsins annars vegar og sjónarmið Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins hins vegar.
Flokkarnir tveir vildu verulega fækkun í varnarliðinu á næsta ári og engar frekari ákvarðanir um framhald málsins. Alþýðubandalagið vildi láta orðið “veruleg fækkun” þýða um 50% fækkun og að árið 1976 yrði tekin endanleg ákvörðun um brottför varnarliðsins. Athyglisvert er, að í þessari tillögu er því haldið opnu, að sú ákvörðun geti verið sú, að varnarliðið yrði áfram.
Geta menn svo skemmt sér við að meta, hvor loðnan er loðnari, tillaga Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins eða tillaga Alþýðubandalagsins.
Þegar viðræðurnar fóru út um þúfur, virtist ekki vera enn kominn upp verulegur ágreiningur um efnahagsmál. Gagnkvæmar ásakanir í því efni hafa að minnsta kosti ekki verið áberandi síðustu daga.
Svo virðist sem Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið ætluðu sér að fallast í öllum aðalatriðum á tillögur Ólafs Jóhannessonar um verulega kjaraskerðingu og tilfærslu fjármagns til atvinnulífsins. Samkomulag hefði getað náðst um frystingu kaupgreiðsluvísitölunnar, 15% gengislækkun, skattahækkanir og aðstoð við útgerð.
En útkoman varð sú á viðræðum vinstriflokkanna, að þessi stórmál voru.ekki leidd til lykta. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn hafa ef til vill hvor með sínum hætti ekki kært sig um að bera ábyrgð á endanlegri loðnu varnarmálanna og harkalegri kjaraskerðingu til bjargar þjóðarhag. Og Framsóknarflokkurinn hefur ef til vill áttað sig á, að samstarf með þessum flokkum yrði ekki dans á rósum. Undir slíkum kringumstæðum var handhægt að grípa til ágreinings um skrípamál á borð við samráðin við aðila vinnumarkaðarins.
Jónas Kristjánsson
Vísir