Hamlað gegn hættum

Greinar

Nýr skipakostur og ný veiðitækni ættu að geta gert líf sjómanna hættuminna en það var áður. Ekki sízt ætti tilkoma skuttogaranna að geta stuðlað að þessu. Vinnan um borð í þeim fer að töluverðu leyti fram undir þaki og skipin sjálf eru nógu stór til að vera fær í flestan sjó.

En hingað til hafa skuttogararnir fremur orðið til að magna slysahættu sjómanna. Er skemmst að minnast slysaöldunnar, sem varð á miðju ári í fyrra og olli miklu umtali. Var þá bent á, að efla þyrfti að marki öryggisráðstafanir um borð í skuttogurum og benda sjómönnum á, að skortur á þjálfun í nýjum vinnubrögðum við nýjar aðstæður geti haft margvíslegar hættur í för með sér.

Rannsóknanefnd sjóslysa á skuttogurum hefur nú gefið út tillögur um ýmsar úrbætur. Þetta eru ekki endanlegar tillögur hennar, heldur aðeins miðaðar við að leysa brýnustu þarfir á þessu sviði, svo að unnt sé að hefjast handa sem allra fyrst.

Sjóslysanefndin vill láta setja skutrennsluloka í alla skuttogara. Þetta eru stálþil, sem ganga niður í dekkið við skutrennuna og er stjórnað með sérstökum vökvabúnaði. Slíkir skutrennulokar eru þegar komnir í þrjá togara og þykja gefa góða raun.

Nefndin vill, að þess sé jafnan gætt, að sami maður sinni aldrei samtímis stjórn skips og stjórn togvindu. Reynslan hefur sýnt, að hættulegt getur verið, að einn skipstjórnar maður gegni báðum þessum ábyrgðarmiklu störfum í senn, ekki sízt þar sem hinar nýju togvindur eru bæði öflugar og krefjast nákvæmni í meðferð.

Einnig vill nefndin skylda sjómenn, sem vinna á afturþilfari skuttogara, til að nota öryggisbelti við störf sín. Gerðar hafa verið tilraunir með slík belti og hafa þau þegar sannað gagnsemi sína.

Jafnframt vill nefndin skylda sjómenn til að nota öryggishjálma við alla vinnu á þilfari. Á vesturþýzkum togurum er þegar búið að fyrirskipa slíka hjálma.Þeir gefa mikla vernd, þegar vírar slitna eða krókar losna.

Þá vill nefndin, að unnið sé að útvegun búnaðar, er hindrað geti myndun hálku á þilfari skuttogara. Hálkan er bæði algeng og hættuleg eins og dæmin sanna.

Ennfremur vill nefndin láta koma upp bjarghringjum á rúllulínum aftast á skuttogurum beggja vegna skutrennunnar.

Nefndin vill skylda sjómenn á skuttogurum til að bera létt og lipur björgunarvesti innan hlífðarfata og bendir á sérstök vesti, sem henta í þessu skyni.

Einnig bendir nefndin á, að nú séu fáanleg lipur hlífðarföt, er komið geti í stað sjóstakka, sem eru þunglamalegir og geta hindrað hreyfingar sjómanna. Hinir þungu stakkar hafa verið bannaðir um borð í vesturþýzkum togurum.

Þá vill nefndin, að þess sé jafnan gætt, að kallkerfið milli stjórnpalls og afturþilfars sé jafnan gott og öruggt, en þessu er víða ábótavant, einkum vegna lélegs útbúnaðar. Loks vill nefndin, að reykköfunartæki séu um borð í öllum skuttogurum, ekki aðeins þeim, sem eru stærri en 500 tonn.

Vonandi verða þessar tillögur framkvæmdar sem fyrst, svo að sjómenn megi framvegis búa við meira öryggi en hingað til.

Jónas Kristjánsson

Vísir