Rómverskur keisari sagði einu sinni, að góður fjárhirðir rýi sauði sína,en flái þá ekki. Hann var að benda á þá staðreynd, að óhófleg skattheimta hefnir sín, þótt hún gefi miklar tekjur í bili.
Nú er kominn sá tími ársins, að sauðirnir eru leiddir fram. Skattskrárnar eru byrjaðar að líta dagsins ljós. Úr þeim má lesa þá óþægilegu staðreynd, að 75% íslenzku þjóðarinnar teljast til hátekjumanna. Þrír af hverjum fjórum komast í hæsta skattstigaþrep.
Hin beina skattlagning vinnu er greinilega komin út í öfgar. Skattprósenta hins almenna borgara er orðin svipuð og hjá því ríkisfólki erlendis, er hefur sem svarar mörgum milljónum króna í tekjur á ári. Þessi fáranlega skattheimta lamar vinnuvilja og eljusemi þjóðarinnar og leiðir fyrr eða síðar til þjóðhagslegs ófarnaðar
Þá var öldin önnur, þegar viðreisnarstjórnin ríkti. Þá voru notaðar þrjár reglur til að hindra, að sauðirnir yrðu flegnir. Í fyrsta lagi var skattheimtu og annarri tekjuöflun ríkisins haldið í fastri prósentu af veltu þjóðarbúsins, í rúmlega 20%, til þess að hindra útþenslu ríkisbáknsins. Í öðru lagi var höfð hliðsjón af því, að venjulegar Dagsbrúnartekjur að viðbættum einum eftirvinnutíma væru skattfrjálsar. Í þriðja lagi voru beinir skattar látnir hverfa í skugga óbeinna skatta af eyðslu.
Hin niðurdrepandi skattheimta hófst með innreið vinstri stjórnarinnar. Tekjuöflun ríkisins var aukin í grófum dráttum úr 20% í 30% af veltu þjóðarbúsins. Þar með varð að nýta alla möguleika á skattheimtu til fulls. Tekjuskatturinn var á nýjan leik gerður að miklum skatti, án þess þó að óbeinir skattar væru lækkaðir á móti. Þeir hafa þvert á móti hækkað líka.
Útkoma skattskránnar felur í sér alvarlega viðvörun um ógöngurnar, sem skattheimtan er komin í. Það sjá allir, sem kæra sig um, að skattakerfið er orðið sjúkt, þegar þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar verða að borga í skatt yfir 50 aura af síðustu krónunum af tekjum sínum.
Eitt allra mikilvægasta pólitíska mál þjóðarinnar um þessar mundir er að gera uppskurð á þessu hættulega kerfi, sem lamar allt framtak þjóðarinnar. Gera þarf róttækar breytingar á skattakerfinu, áður en meiri skaði er skeður. Aftur þarf að taka upp gamla viðreisnarkerfið, halda útþenslu ríkisbáknsins i skefjum, afnema tekjuskatt af venjulegum verkamannatekjum og flytja þunga kerfisins yfir á eyðsluskatta. Aðeins slik breyting getur vakið blundandi framtak með þjóðinni, dregið úr áhuga á skattsvikum og endurvakið trú þjóðarinnar á sanngirni skattheimtunnar.
Rómverski keisarinn hefði ekki talið Halldór E. Sigurðsson fjármálaráðherra góðan fjárhirði. Halldór er nefnilega ekki að rýja sauði sína um þessar mundir, heldur er hann að flá þá, ríkisstjórn eyðsluseminnar til tímabundinnar fróunar.
Jónas Kristjánsson
Vísir