Haldið framhjá Bubba

Punktar

BUBBAMÁLIÐ ER MERKILEGT INNLEGG í fjölmiðlaumræðuna. Það snýst um, hvort eðlilegt eða heppilegt sé að fjalla um í fjölmiðlum, að haldið hafi verið framhjá Bubba Mortens. Enginn hefur efast um, að fréttin í Hér og Nú um framhjáhaldið hafi verið rétt.

BEZTA BYRJUN SLÍKRA FRÉTTA er á vefnum. Að svo miklu leyti sem íslenzkir fjölmiðlar haga sér ekki eins og erlendir fjölmiðlar og reyna að halda upplýsingum frá lesendum, er mikilvægt, að fyrstu fréttir byrji á veraldarvefnum. Hann er óritskoðaður, frjáls, enginn getur sakað hann um neitt.

SÍÐAN GETA SVONEFNDIR SÓÐAMIÐLAR tekið. Það mundu þá vera Hér og Nú og DV, þar sem reynt er að segja fréttir, þótt álitsgjafar þjóðfélagsins telji brýnna, að fjölmiðlar skammti fréttir í fólk og hafi þá hliðsjón af þeirri séríslenzku hræsni, sem segir, að oft megi satt kyrrt liggja.

ÞÁ LOKS GETA HRÆSNISMIÐLAR KOMIÐ, svo sem Talstöðin og Stöð 2. Þá er hægt að koma málinu að undir því virðulega yfirskini, að verið sé að rökræða eða rífast um, hvort eðlilegt eða heppilegt sé að segja frá því, að haldið hafi verið framhjá Bubba.

FRÉTTABLAÐIÐ OG BLAÐIÐ BIRTA VÉFRÉTTIR um rökræðuna og rifrildið, en Ríkið og Morgunblaðið þegja auðvitað þunnu hljóði. Enginn virðist geta upplýst, að það hljóti að vera stórfrétt í smáatriðum, þegar gerandi og þolandi umfangsmestu mansöngva nútímans hafa skilið.

OG SVO ERU ÞAÐ BÖRNIN. Þau vissu af málinu löngu áður en fjölmiðlarnir fóru af stað. Það fer ekki framhjá þeim, þegar annað foreldrið í tveimur fjölskyldum fer að heiman. Ef eitthvert vit er í foreldrunum, hafa þau fyrir löngu sett börnin inn í málið.

SÉRSTÖK SPURNING ER svo þessi. Skammast frægt fólk sín ekkert fyrir að hlaupa um bæinn í leit að framhjáhaldi? Hvar er tilfinningin fyrir eigin ábyrgð?

DV