Hagkeðja auðlindaskatts

Greinar

Kenningin hans Kristjáns Friðrikssonar iðnrekanda um hag<< ... >> athyglisverðasta tillaga um bættan þjóðarhag, sem fram hefur komið hér á landi. Kristján vill láta auðlindaskatt á fiskveiðar efna til þeirrar keðju breytinga, er breyti Íslandi úr láglaunaríki í öflugt iðnríki, sem hafi fiskveiðar sem eins konar hlunnindi umfram flest önnur ríki.

Kristján telur óhætt að líta á fiskinn Í sjónum sem eins konar hjörð húsdýra, er leiða beri til slátrunar á heppilegum tímum og með eins lítilli fyrirhöfn og mögulegt er. Veiðar verði nær alveg bannaðar á stórum svæðum við landið og aðgangur seldur að öðrum svæðum, eins og aðgangur er nú seldur að laxveiðiám.

Þessi auðlindskattur gæti að áliti Kristjáns komið fram í, að veiðarnar yrðu boðnar út hæstbjóðandi. Ekki yrði hleypt að fleiri skipum en svo, að þau nýttust til fulls. Það þýddi að minnsta kosti fjórðungs samdrátt í tonnafjölda fiskiskipastólsins og mætti þá hugsanlega selja afganginn. Aflinn yrði hinn sami og áður, en á mun minni olíu og öðrum tilkostnaði og á mun færri sjómönnum.

Þetta mundi leiða til stórbættra tekna sjómanna og svo mikils hagnaðar útgerðarinnar, að hún gæti borgað auðlindaskatt upp á 6-7 milljarða á ári til að byrja með. Það mundi síðan aukast, þegar aukin friðun hefði leitt til aukinna fiskistofna og í framhaldi af því til aukins aflamagns.

Þessa milljarða vill Kristján nota til að byggja upp nýiðnað hér á landi. Það mætti m.a. gera með því að lána hér á landi til iðnaðar eins og gert er í öðrum löndum eða þá eins og nú er gert hér á landi til sjávarútvegs og landbúnaðar.

Kristján vill láta gæta þess, að hluti af þessum nýiðnaði rísi á þeim stöðum, þar sem friðun miða og samdráttur fiskiskipaflota mundi ella valda atvinnuleysi. En að öðru leyti eigi þessi iðnaður að rísa sem víðast á þeim stöðum, þar sem fólk er að koma í fjölmennum hópum inn á vinnumarkaðinn.

Kristján segir, að í samanburði við iðnað á Norðurlöndum sé engin ástæða til að efast um, að hér geti risið upp margvíslegur iðnaður. Skilyrði séu hér ákjósanleg, einkum til smáiðnaðar og miðlungsiðnaðar. Hér séu góðir hugvitsmenn og hagleiksmenn. Við eigum hagkvæmar orkulindir í fossum og jarðvarma. Og við séum vel settir mitt á milli helztu markaðssvæða heims. Einkum bendir Kristján á mikil tækifæri í málmiðnaði.

Þannig telur Kristján að byggja megi upp keðju, þar sem hver hlekkurinn styðji annan og byggi smám saman upp iðnaðarríki á Íslandi. Grundvöllurinn sé sá, að fiskistofnanir séu nýttir á hagkvæmasta hátt og hluti arðsins af því lagður í sérstakan auðlindasjóð, sem síðan standi undir iðnvæðingu landsins.

Hvernig væri nú, að ráðamenn þjóðarinnar færu nú að hlusta á menn eins og Kristján, sem koma beint úr atvinnulífinu og hugsa á annan hátt en eftir þeim brautum, sem hugsun ráðamanna þjóðarinnar hefur fest sig í.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið