Hafnbann er sjálfsagt.

Greinar

Vesturþýzku eftirlitsskipin á Íslandsmiðum hafa verið að leika þorskastríð á miðunum með því að fylgjast kerfisbundið með ferðum íslenzku varðskipanna og vara vesturþýzku togarana við þeim.

Með þessu eru eftirlitsskipin orðin svo virkur aðili að landhelgisdeilunni, að sjálfgert er að stöðva alla þjónustu við þau í íslenzkum höfnum, aðra en björgun mannslífa.

Út af fyrir sig skiptir það litlu í þorskastríðinu, hvort vesturþýzku eftirlitsskipin fá þjónustu hér eða ekki. En kringumstæðurnar knýja okkur til að mótmæla í verki njósnum þessara skipa hér við land.

Hið aukna kapp, sem vesturþýzkir togarar hafa að undanförnu lagt á veiðar innan fiskveiðilögsögunnar, neyðir landhelgisgæzluna til að efla aðgerðir sínar gegn þeim. Togvíraklippingar eru eðlilegur þáttur þessara landvarna, og má gjarnan auka þær eftir föngum.

Ríkisstjórn okkar verður að sjálfsögðu að sýna fulla ábyrgð og forðast vanhugsuð skref. Og allra sízt má hún láta hentistefnu eða yfirboð af hálfu stjórnarandstöðunnar koma sér úr jafnvægi.

Hitt má henni vera ljóst, að kröfurnar um auknar togvíraklippingar og hafnbann á eftirlitsskipin eru eðlilegar kröfur í núverandi ástandi og að þær njóta víðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar.

Landhelgismálið er tiltölulega lítið flokkspólítískt um þessar mundir. Skoðanir manna á því fara mjög saman, hvar í flokki sem þeir standa. Menn hafna yfirboðum, sem höfða til þjóðrembings, en krefjast þess jafnframt, að einarðlega sé haldið á málinu.

Einkennilegt er, að vesturþýzka stjórnin skuli reyna að egna togaraskipstjóra sína til að halda uppi spennu á Íslandsmiðum með því að tryggja þeim greiðslu fyrir skaða, sem þeir kunna að verða fyrir. Þessi baktrygging gerir íslenzku ríkisstjórninni nánast ókleift að halda uppi nokkrum viðræðum við hina vesturþýzku um lausn málsins.

Baktrygging vesturþýzkra stjórnvalda gagnvart togurunum er bein eða óbein tilraun til að koma illu af stað í landhelgisdeilunni. Hún gefur tilefni til að ætla, að ekki sé nokkur von á samningum við Vestur-Þýzkaland um lausn deilunnar.

Einstakir ráðamenn í vesturþýzkum stjórnmálum sýna oft mikinn skilning og sáttfýsi í viðræðum við íslenzka aðila. Þeir átta sig á, að hin opinbera stefna Vestur-Þýzkalands í málinu er byggð á mjög svo takmörkuðum sérhagsmunum, sem fara á engan hátt saman við almannaheill þar í landi. En þessir, sem skilja, virðast engin áhrif hafa á málið.

Við skulum því herða aðgerðirnar gegn vesturþýzku togurunum og banna eftirlitsskipum þeirra að koma til íslenzkra hafna, -um leið og við gerum okkur grein fyrir því, að samkomulag við Vestur-Þjóðverja á óralangt í land.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið