Hættum að þrasa

Greinar

Við segjum okkur stundum vera þrasgefna þjóð, þjálfaða í fínlegum hártogunum í innbyrðis deilum okkar. Sundurlyndið út af smáatriðun getur valdið okkur skaða, þegar um mikilvæg mál er að ræða eins og landhelgismálið. Við megum ekki gera okkur þann óvinafagnað að fara sífellt í hár saman út af tiltölulega litlum skoðanaágreiningi í landhelgismálinu.

Öll þjóðin hefur staðið saman um 50 mílna landhelgina og gerir enn. Það er illa gert að stimpla áhugamennina um skjóta 200 mílna landhelgi sem flóttamenn frá 50 mílunum. Þeir, sem vilja aðgerðir í 200 mílunum, eru ekki á móti baráttunni fyrir 50 mílum, þótt Þjóðviljinn hafi reynt að láta líta svo út.

Aðstæður í landhelgismálinu eru stöðugt að breytast. Við þurfum því að hafa sveigjanlega stefnu, sem gerir okkur kleift að hagnýta til fulls allar hagkvæmar breytingar á aðstæðum. Við verðum að vera reiðubúnir til að færa okkur upp á skaftið gagnvart andstæðingum okkar í landhelgismálinu, þegar tækifæri gefast til.

Við náðum nokkrum árangri í upphafi, þegar við stækkuðum fiskveiðilandhelgina fyrir ári. Margar þjóðir viðurkenndu strax í reynd eða í samningum þá útfærslu. Sömuleiðis vakti útfærslan töluverða athygli erlendis og stuðlaði að því að fleiri þjóðir fóru að hugsa af meiri alvöru um stækkun eigin landhelgi.

En við höfum að verulegu leyti staðið í stað frá upphafi við framkvæmd 50 mílnanna. Andstæðingar okkar hafa með hörku og yfirgangi hindrað okkur í framkvæmdinni. Þeir veiða svipað magn og áður milli 12 og 50 mílna og eru jafnvel farnir að veiða innan 12 mílna, án þess að við höfum fengið rönd við reist.

Sem betur fer hefur hið erfiða varnarstríð okkar á miðunum ekki verið eina hliðin á þróun landhelgismálsins undanfarið ár. Á þessum tíma hefur stefna 200 mílna auðlindalögsögu farið sigurför um heiminn. Við höfum tekið þátt í þeirri stefnu með samstarfi við 200 mílna ríkin. En við höfum ekki stigið það skref til fulls, því að við höfum ekki enn lýst yfir 200 mílna landhelgi.

Þeir, sem vilja yfirlýsingu um 200 mílna land helgi, eru ekki með nein yfirboð. Þeir vilja aðeins, að við hagnýtum okkur hið bráðasta þá þróun, sem orðið hefur á undirbúningsfundum hafréttarráðstefnunnar að undanförnu, og að við stöppum um leið stálinu í þær þjóðir, sem hafa gælt við hugmyndir um 200 mílna auðlindalögsögu.

Við eigum ekki að vera að rífast um, hvort við ættum að fara út í 200 mílur á næsta ári. Við eigum ekki að gera það að pólitísku máli. Við eigum ótrauðir að ráðast í svo sjálfsagðan hlut.

Um 80-90 ríki styðja 200 mílna auðlindalögsögu. Yfirlýsing mikils meirihluta hafréttarráðstefnunnar um slíka landhelgi er væntanleg upp úr miðju næsta ári, líklega með rúmlega tveimur þriðju atkvæða.

Í kjölfar slíkrar yfirlýsingar getum við fært landhelgina út í 200 mílur, þótt nokkur misseri geti liðið, áður en slík landhelgi fær formlega staðfestingu með undirskrifuðu alþjóðasamkomulagi. Og staðreyndin er sú, að ekkert bendir til þess, að 200 mílna landhelgi okkar komist síðar til raunverulegra framkvæmda en 50 mílurnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir