Hættuleg góðvild.

Greinar

Ríkisvaldið er einn hættulegasti óvinur frjálsrar fjölmiðlunar. Úti í heimi kemur þessi andstaða yfirleitt fram í ritskoðun, fangelsunum og útgáfustóðvun, sem jafnan eru meðal fyrstu verka alræðisstjórna, þegar þær komast til valda.

En ríkisvaldið getur líka verið hættulegt á annan veg. Góðvild þess getur keyrt úr hófi fram, þannig að fjölmiðlarnir verði háðir henni og geti ekki án hennar verið. Þegar fjármálaráðherra er orðinn stærsti viðskiptavinur dagblaða, er slík hætta á ferðum.

Sú góðvild ríkisvaldsins, sem kemur fram í kaupum á 450 eða 200 eintókum dagblaðs, byggist ekki á þeirri stefnu, að tjáningarfrelsi sé eflt sem mest. Hún er gerð fyrir stjórnmálaflokkana til þess að draga úr taprekstri þeirra af útgáfu lyga og blekkinga.

Allt, sem ríkisvaldið hefur gert fyrir dagblððin hér á landi, er sama marki brennt. Það er gert að tilhlutan stjórnmálaflokkanna, sem eru að reyna að fá sem mest af rekstri sínum greitt af almannafé. Greiðslurnar til dagblaðanna hafa verið sömu ættar og ýmsar greiðslur til þingflokka stjórnmálaflokkanna.

Fyrir Dagblaðið skiptir litlu, þótt það neiti góðu boði um 200 áskriftir. Þessar áskriftir yrðu ekki nema 2% af áskriftartekjum blaðsins. Dagblaðið þarf því ekki einu sinni sterk bein til að hafna faðmlögum fjármálaráðuneytisins.

Hins vegar hefur það afar slæm áhrif á rekstur AlÞýðublaðsins, þegar ríkið minnkar blaðakaup sín úr 450 í 200 eintök. Þar með missir Alþýðublaðið á einu bretti 15% af áskriftartekjum sínum. Allt í einu er tekið frá því eiturlyf, sem hefur stuðlað að því að halda blaðinu gangandi í nokkur ár.

Slíkt blað er að sjálfsögðu fyrir löngu orðið háð þeim aðilum, sem útvega því slík eiturlyf af þessu tagi. Samdrátturinn setur taugar aðstandenda blaðsins úr jafnvægi. Sárindi Alþýðublaðsins fá síðan útrás í endurteknum fullyrðingum um, að Dagblaðið hafi beðið um ríkisáskriftir og njóti þeirra nú.

Bæði ráðuneytisstjóri fjármála og formaður úthlutunarnefndar blaðafjár hafa skýrt frá því, að Dagblaðið hefur hvorki formlega né óformlega farið fram á slíkar ríkisáskriftir né aðra blaðastyrki. Hins vegar hefur fjármálaráðuneytið að tilhlutan nefndarinnar boðið Dagblaóinu að kaupa þessi 200 blöð. En Dagblaóið hefur að minnsta kosti ekki enn tekið því boði.

Það er misskilningur, að tjáningarfrelsi verði varðveitt með greiðslum af þessu tagi. Væru dagblöðin yfirleitt óháð stjórnmálaflokkunum, hefði stjórnmálamönnum okkar aldrei dottið í hug að troða slíkum greiðslum inn á ríkisfjárlögin.

Staðreyndin er sú, að flokksblöð, sem beinlínis eru gerð út til að troða inn á almenning rétttrúnaði og öðrum blekkingum viðkomandi flokks, hljóta alltaf að verða rekin með tapi. Það tap kemur ekkert tjáningarfrelsi við og á aðeins að vera herkostnaður viðkomandi stjórnmálaflokks.

Tjáningarfrelsi er hins vegar haldið uppi af vel upplýstum almenningi, er kaupir þá fjölmiðla, sem hann vill hafa og tryggir á þann hátt rekstur þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið