Þótt verðbólga sé eitur í beinum efnahagslífsins, hefur hún ekki skuggahliðar einar saman. Í verðbólgu eru framkvæmdir yfirleitt miklar og atvinnuástand gott.
Á sama hátt hefur verðhjöðnun ekki eingöngu jákvæðar hliðar. Samdrátturinn felst meðal annars í minnkun framkvæmda. Hastarleg hjöðnun getur hæglega leitt til atvinnuleysis.
við sérstakar aðstæður geta verðbólga og atvinnuleysi farið saman. Um það höfum við séð mörg dæmi á Vesturlöndum á áttunda tug þessarar aldar. Þetta getur gerzt, þegar atvinnulífið er ótraust.
Um hitt höfum við líka dæmi, að verðhjöðnun og full atvinna geti farið saman, þar sem atvinnulífið er mjög traust. En þá er líka aðeins átt við hjöðnun niður að stöðugu verðlagi, en ekki niður fyrir það.
Í stjórnmálum verður að setja markmið í forgangsröð. Menn geta ekki bæði átt kökuna og étið hana. Margir íslenzkir stjórnmálamenn láta samt sem svo sé. Eru leiðtogar Alþýðubandalagsins þar fremstir í flokki.
Þegar full atvinna er fremsta markmiðið, er alltaf hætt við verðbólgu. Og þegar sigur á verðbólgu er fremsta markmiðið, er alltaf hugsanlegt, að atvinna verði ótrygg á ýmsum sviðum.
Í uppkasti Ólafs Jóhannessonar að efnahagsfrumvarpi er baráttan við verðbólguna fremsta markmiðið. Þar eru í fyrsta skipti i mörg ár settar á oddinn raunhæfar aðgerðir gegn höfuðóvininum.
Verðtrygging lána umfram þrjá mánuði er þungamiðja uppkastsins. Í sama farveg falla 25% þak á fjárfestingu og 30% þak á ríkisútgjöldum, frestun á hluta verðbóta og minnkun sjálfvirkni í ýmsum opinberum framlögum.
Uppkastið stefnir að minni framkvæmdum, enda hefur þjóðin ofkeyrt sig á því sviði . Verðtrygging lánsfjár getur leitt til, að menn kjósi ekki síður að eiga peninga en steypu eða ýmis tól, sem ekki eru beinlínis nauðsynleg.
Sennilega hefur verðbólgan belgt byggingariðnaðinn og ýmsan innflutning úr hófi fram. Á slíkum sviðum er jafnan hætt við atvinnuskorti, þegar verð- bólgan stöðvast. Þjóðin hefur heldur ekki efni á eins umfangsmiklum byggingariðnaði og hér hefur verið.
Hægfara þróun er betri en snöggar sveiflur. Það borgar sig ekki að stökkva á einum degi frá verðbólgustefnu yfir í samdráttarstefnu. Hægfara þróun auðveldar alla aðlögun.
50% verðbólga verður ekki afnumin á einu ári. Enda er líklegt, að ríkisstjórnin geti verið ánægð með að koma henni niður í 30% á þessu ári og 10% á hinu næsta.
Dagblaðið er þeirrar skoðunar, að uppkast Ólafs Jóhannessonar stefni að hæfilegum hraða í samdráttarstefnunni. Aðrir telja hraðann of mikinn og hættuna á atvinnuleysi of mikla. Leiðtogar Alþýðubandalagsins virðast þeirrar skoðunar.
Samt er augljóst, að ríkisstjórnin getur dregið úr hraðanum, ef hann reynist svo mikill, að atvinnu manna sé stefnt í verulega tvísýnu. Hún getur líka aukið hraðann, ef uggurinn reynist ástæðulaus.
Bezt væri, ef Ólafur Jóhannesson gæti lagt uppkast sitt i dóm þjóðarinnar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi örugglega í ljós, að öflugur meirihluti er hlynntur uppkastinu. Þjóðin er uppgefin á verðbólgu og telur, að ekkert annað markmið megi skyggja á haráttuna við hana.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið