Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur ekkert lært og engu gleymt. Hann hefur nú endurnýjað úrskurð sinn um, að Íslendingar láti brezku og vesturþýzku togarana í friði, Bretar fái að veiða l70 þúsund tonn á ári á Íslandsmiðum og Þjóðverjar 119 þúsund tonn.
Stefnufesta dómstólsins hefur leitt til þess, að hann er orðinn kaþólskari en páfinn. Hann gefur Bretum og Þjóðverjum víðtækari heimildir en þeir sjálfir bjóða upp á í viðræðum við Íslendinga. Meðan dómstóllinn talar um 170 þúsund tonn, eru Bretar að stinga upp á 135-l45 þúsund tonnum. Og meðan dómstóllinn talar um119 þúsund tonn, eru Þjóðverjar að stinga upp á l00 þúsund tonnum.
Dómstóllinn hefur greinilega ekki snefil af áhuga á náttúruvernd. Óyggjandi tölur sýna fram á, hvernig þorskurinn við Ísland fer síminnkandi og hvernig rányrkjan er að eyða sterkasta árganginum, áður en hann verður kynþroska. Dómstóllinn tekur þannig á sig þyngri ábyrgð en hinir fínu og öldruðu herrar, sem skipa hann, geta staðið undir.
Dómstóllinn veitir nýlendustefnu óbeinan stuðning með því að viðurkenna sögulegan rétt, sem Bretar og Þjóðverjar hafa aflað sér með vafasömum hætti. Bretar þrengdu sér upphaflega með ofbeldi inn á Íslandsmið og kúguðu síðan Danakonung til að draga saman landhelgina við Ísland. Ofbeldi er ekki betra fyrir þá sök, að þrjótnum haldist uppi að fremja það um langan aldur.
Fadillo Nerva, dómarinn, sem studdi Íslendinga í fyrra skiptið, er nú hættur, en í hans stað tóku nú þrír dómarar af fjórtán upp hanzkann fyrir Íslendinga. Þessi aukni skilningur á málstað Íslands er eini ljósi pukturinn í annars óhagstæðum afskiptum Haag-dómstólsins af málinu.
Við tökum vissulega ekki mark á bráðabirgðaúrskurðinum nýja fremur en hinum gamla. En við vitum samt, að úrskurðurinn hefur áhrif og veldur okkur erfiðleikum. Þess vegna er okkur óhætt að naga neglurnar út af því að hafa ekki rekið harðvítugan málflutning fyrir dómstólnum
Hinn skriflegi málflutningur okkar var einkar máttlaus. Nokkrar greinargerðir, bréf og skeyti voru send dómstólnum. Ef við hefðum hins vegar sent málflutningsmenn, er hefðu rökrætt ýtarlega þau atriði sem hagstæðust eru málstað okkar, hefðu dómararnir öðlast mun betri skilning á hinum geigvænlegu vandamálum, sem Íslendingar eru að reyna að leysa með útfærslu fiskveiðilandhelginnar.
Við hefðum getað áskilið okkur allan rétt, þrátt fyrir munnlegan málflutning. Þess eru mörg dæmi, að ríki hafa fyrirfram lýst yfir því, að þau teldu Haag-dómstólnum óheimilt að hafa afskipti af ákveðnum málum, en hafa samt sent menn til að verja mál sitt fyrir honum. Og þau hafa líka unnið mál sitt. Íran neitaði t.d. einu sinni að fallast á lögsögu dómstólsins í olíudeilu við Bretland, en varði samt málið í Haag og vann það.
Hinir virðulegu dómarar í Haag fengu því miður ekki aðstöðu til að kynna sér ofan í kjölinn málstað Íslands. Þess vegna hafa þeir ekkert lært og engu gleymt, síðan þeir kváðu upp sinn illræmda úrskurð í fyrra. Endurtekning þess dóms er ekki til þess fallin að halda uppi sóma og
virðingu dómstólsins og leiðir því síður til neinnar lausnar á fiskveiðideilunni.
Jónas Kristjánsson
Vísir