Grófur dómur

Greinar

Ætla mætti, að Hæstiréttur hefði einhvern gamansaman skilning á Parkinsonslögmálinu og Pétursreglunni og telji embættismenn yfirleitt ekki hæfa til að gegna embættum sínum. Dómstóllinn úrskurðaði nýlega embættismannakerfið ábyrgðarlaust af grófum mistökum þess í stjórnsýslu í sambandi við fóstureyðingarmál, sem frægt er orðið.

Konan, sem málið höfðaði gegn kerfinu, fékk rauða hunda snemma á meðgöngutímanum, gekk á milli Heródesar og Pílatusar til að fá leyfða fóstureyðingu, en málið tafðist nægilega í kerfinu til þess, að á endanum varð of seint að framkvæma aðgerðina að mati yfirlæknis sjúkrahússins. Fæddist því barn hennar mjög fatlað, eins og búizt hafði verið við.

Ástæðulaust er að ætla Hæstarétti djúpstæðan skilning á getuleysi embættismanna og ábyrgðarleysi´embættismannakerfisins. Hitt er líklegra, að hér hafi embættismenn verið að.sýkna embættismenn og er sú gerð Hæstarétti til töluverðrar vanvirðu.

Allt þetta mál er einn samfelldur áfellisdómur á embættismannakerfið í landinu, allt frá almennum embættismönnum upp í Hæstarétt. Alvarlegast er þó tilfinningaleysið, sem lýsir sér í gerðum kerfisins, allt frá því að konan hóf sína löngu þjáningargöngu.

Niðurstaða Hæstaréttar er líka.töluvert áfall fyrir þá, sem hingað til hafa talið gildandi lög um fóstureyðingar nægilega rúm til að falla að aðstæðum á hverjum tíma. Samkvæmt túlkun Hæstaréttar á lögunum er embættismannakerfinu heimilt að klúðra fóstureyðingarmálum án nokkurrar ábyrgðar og með alvarlegum afleiðingum fyrir almenna borgara.

Tímabært er orðið, að almennir borgarar snúist til varnar gegn embættismannakerfinu, ekki aðeins á þessu sviði, heldur ótal öðrum. Þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi ber nú skylda til að hefja endurskoðun á lögum er afhenda embættismönnum vald, sem þeir eru ekki færir um að beita.

Jónas Kristjánsson

Vísir