Grjótkast á Paradísareyju

Greinar

Einstaklega skrítinn maður er þessi Kristján Pétursson, sem sífellt er að kasta grjóti í spegilslétt vötn þessarar Paradísareyjar, sem við búum á. Slíkur maður, sem kann ekki einu sinni að verja frítíma sínum, getur varla verið með sjálfum sér.

Hvernig væri nú, að Kristján færi að verja frítíma sínum til lesturs fagurra bókmennta um einstakt manngildi landans og framúrskarandi lýðræðishefðir réttarríkis okkar? Og hvernig væri nú, að hann færi að læra utanað ljóð og ferskeytlur höfuðskáldanna til að verða viðræðuhæfur í leynifélögum framsóknarmanna úr öllum flokkum.

Í slíkum félögum gæti Kristján lært góða siði í umgengni við dómara, bankastjóra, þjóðarleiðtoga og aðra riddara fálkaorðunnar. Það væri ólíkt fegurri iðja en að sitja fyrir heiðursmönnum suður með sjó, bara til þess að komast á prent hjá gróðafíknum og öfugsnúnum sorpblaðamönnum Dagblaðsins.

Í framhaldi af slíkri siðvæðingu mætti leyfa honum að taka þátt í fínasta spili þjóðarinnar, gjöfum verðbólgunnar, með siðprúðum stjórnmálamönnum, heiðursmönnum og bankastjórum.

Stundum eru gjafir verðbólgunnar spilaðar á þann hátt, að þú kaupir fjárskuldbindingar með afföllum og selur þær síðan lánastofnun á nafnvirði. Stundum eru þær svo spilaðar á þann hátt, að þú færð lán í banka til að kaupa steypu og endurgreiðir svo lánið löngu síðar með litlum og verðbólgurýrðum krónum.

Slíkir leikir eru löglegir og stuðla mjög að andlegu jafnvægi og traustum fjárhag beztu sona þjóðarinnar. Þeir gera stjórnmálaflokkum kleift að einbeita kröftunum að uppbyggingu göfugs menningarþjóðfélags á Paradísareyjunni. Þeir stuðla líka mjög að gagnkvæmum skilningi, friði og vináttu þeirra, sem axlað hafa hina þungu byrði stjórnmálanna.

Um síðir gæti Kristján ef til vill orðið varaformaður í bankaráði og lánað húseigendum milljónir í þakklætisskyni fyrir lága húsaleigu og enga fyrirframgreiðslu. Það er alltaf gott fyrir sálina að geta gert eitt góðverk á dag og kannski tvö kraftaverk á dag.

Þannig gæti Kristján lyft sér upp á hærra menningarstig og hætt að kúra í hraunum í kulda og trekki í bið eftir leigubílum og með lágkúrulegar handtökuheimildir í vasanum. Það er engin furða, þótt framsóknardómarar úr öllum flokkum grípi fram fyrir hendurnar á slíkum mönnum.

Kristján þarf að læra, að á Paradísareyjunni er ekki til siðs að ónáða heiðursmenn. Á slíkri eyju þarf hann ekki að grafa eftir sorpi, því að það er alls ekki til í fyrirmyndarríki lýðræðishefðar. Þetta er sko ekkert lögregluríki!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið