Grænt sumar í borg

Greinar

Þessa mildu sumardaga skartar Reykjavik sínu bezta. Aðkomumenn, sem koma aðeins á nokkurra ára fresti til borgarinnar, sjá, hve ört borginni fleygir fram að svip og fegurð. Heimamenn sjá þetta síður, því að í þeirra augum verða breytingarnar fljótt gamlar.

Það er ekki langt síðan flestar götur í Reykjavík voru malargötur, sem rykið grúfði yfir. Og það er ekki langt síðan flest hús borgarinnar voru olíukynt og spúðu reykmekki. Ekki er lengra síðan Hljómskálagarðurinn og Arnarhóllinn voru einu verulegu grænu blettirnir í borginni.

Nú er öldin önnur. Þrátt fyrir gífurlega hraða útþenslu borgarinnar, fyrst austur fyrir Norðurmýri og síðan langt austur fyrir Elliðaárvog, hefur Reykjavíkurborg tekizt að auka þjónustu sína mun hraðar.

Fyrir nokkrum árum náðist það markmið að koma hitaveitu í öll hverfi borgarinnar. Nú er hitaveita lögð í allar nýbyggingar. Fyrir bragðið lækkar byggingakostnaður og hitunarkostnaður, auk þess sem andrúmsloftið hefur hreinsazt. Skemmra er síðan borginni tókst að koma malbikuninni fram úr byggingaframkvæmdum. Á Breiðholtinu voru götur malbikaðar áður en byrjað var á húsunum. Íbúar nýjustu hverfanna þurfa því ekki lengur að búa við umferðarryk fyrstu árin.

Og nú í ár er jafnvel farið að malbika gangstíga áður en húsin rísa. Þetta var reynt í sumar á Breiðholti í fyrsta sinn. Þetta endurspeglar hinn stóraukna áhuga á umferð gangandi fólks og er einkum vel þegið á sumardögum eins og verið hafa að undanförnu.

Breið ræktarbelti girða nú sumar helztu umferðaræðarnar eins og Miklubraut og Kringlumýrarbraut og gefa borginni notalegan svip í augum þeirra, sem um borgina aka. Miklatún og Laugardalur hafa verið ræktuð upp og kjarrlendi er komið í suðvestanverðri Öskjuhlíð. Ræktun Sogamýrar og útisvæða í Árbæ og Breiðholti er hafin, og ættu þau svæði að geta komið að gagni síðla þessa sumars.

Ekki má gleyma Heiðmörkinni, hinu víðáttumikla útisvæði innan borgarmarkanna, sem verður gróðurríkara og skemmtilegra með hverju sumrinu, sem líður. Og nú er skógræktin í Elliðaárdal farin að draga að sér athygli fólks. Sá dalur verður senn með fallegustu útivistarsvæðum Reykvíkinga.

Síðan lokið var mestu átökunum í hitaveitu og malbikun gatna hefur sennilega ekkert atriði fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar hækkað hlutfallslega eins ört og ræktun og frágangur útivistarsvæða. Enn er að vísu ólokið verulegum verkefnum á því sviði, enda geta fáar borgir heimsins státað af skipulagi jafnmikilla útivistarsvæða og grænna belta og einmitt Reykjavík.

Nú er sá tími ársins, er við kunnum bezt að meta þessar öru framfarir, hreina loftið og grænu svæðin, sem bjóða borgarbúum upp á margvíslega möguleika til leikja og gönguferða.

Jónas Kristjánsson

Vísir