Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra kaus að leggja fyrir ríkisstjórnina margfrægt frumvarp um efnahagsmál á mánudaginn var, tveimur sólarhrirlgum áður en vísitölunefnd ríkisstjórnarinnar átti að koma saman til síðasta fundar.
Verkalýðsmálaráð Alþýðubandalagsins og ráðherrar þess leggja mikla áherzlu á þetta atriði í gagnrýni þeirra á vinnubrögð forsætisráðherra. Með sanngirni verður þó ekki betur séð en forsætisráðherra hafi verið í of miklu tímahraki til að bíða eftir nefnd, sem starfað hefur allt of hægt.
Ólafur Jóhannesson tók upp í frumvarp sitt síðustu tillögu Jóns Sigurðssonar hagrannsóknastjóra í vísitölunefndinni, þó með því fráviki, að frestun vísitölubóta umfram 5% 1. júní, 1. september og 1. desember skuli gilda i níu mánuði, en ekki tólf.
Í stórum dráttum má segja um frumvarpið, að það er soðið saman úr efnahagsfrumvörpum Framsóknarflokksins og A1þýðuflokksins og tekur sem betur fer lítið tillit til hugmynda Alþýðubandalagsins, sem voru sér á parti í veigamiklum atriðum.
Í loðnum kafla um fjárfestingarstjórn er lítið gengið til móts við hugmyndir Alþýðubandalagsins. Ennfremur hafa dottið út áhugamál þess um framleiðsluskipulag, framleiðniáætlanir og fleiri slík atriði, sem margir óttast, að eigi að vera fyrsta skrefið til ríkisrekstrar atvinnulifsins.
Mikilvægasta atriði frumvarpsins eru lágu raunvextirnir, framlag Framsóknarflokksins. Gert er ráö fyrir, að sparifé og lánsfé verði verðtryggt í áföngum til ársloka 1980, ef það er bundið til lengri tíma en þriggja mánaða. Jafnframt verði vextir lækkaðir, þar sem sparifjáreigendur halda verðgildi sparnaðar síns.
Þessi tillaga Ólafs er einstaklega raunhæf árás á verð- bólguna. Hún er ein sér merkari en aðrir liðir frumvarpsins til samans. Hún ber þess líka vott, að landsfeður geti tekið til höndum, eins og þeir gátu síðast á fyrsta starfsári viðreisnarstjórnarinnar fyrir tæpum tveimur áratugum.
Frumvarpið gerir ráð fyrir, að verðbótavísitala launa verði reiknuð eftir framfærsluvísitölu, að frádregnum breytingum á óbeinum sköttum, niðurgreiðslum, launaliði bænda, áfengi og tóbaki, svo og hluta af viðskiptakjörum.
Frumvarpið gerir ráð fyrir, að ríkisbúskapurinn verði ekki meiri en 30% af þjóðarbúskapnum og að ríkisútgjöld verði á árinu lækkuð um einn milljarð frá fjárlögum. Það gerir ráð fyrir arðsemismati opinberra framkvæmda.
Þar eru ákvæði um, að peningar í umferð aukist ekki nema um 25% á árinu og um 20% á næsta ári, að niðurgreiðslur geri vöruverð ekki lægra en verð til bænda, að innlánsbinding i Seðlabanka aukist í 35% og að gildistöku verðlagslaga verði flýtt.
Yfirleitt stefna öll þessi atriði að hjöðnun verðbólgunnar, svo harkalega, þegar allt er saman talið, að ýmsir óttast atvinnuleysi í kjölfarið. Verkalýðsmálaráð Alþýðubandalagsins hefur lýst áhyggjum út af því.
Auðvitað er hægt að slaka á klónni, ef atvinnuleysi fer að verða vandamál. En í ljósi yfirvofandi hækkana á olíu er öruggt, að ríkisstjórn og þjóð verða að draga saman seglin á næstu misserum. Að því stefnir frumvarp Ólafs, enda er það gott frumvarp.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið