Láglaunaráðherra með fimm milljón króna árstekjur á að greiða lægri tekjuskatt en áður, og hálaunafiskikerling með einnar milljón króna árstekjur á að greiða hærri tekjuskatt en áður. Í sjónvarpsþætti á föstudaginn kom fram, að slíkar yrðu meðal annars afleiðingar skattafrumvarps þess, sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir alþingi.
Í þessum þætti fetuðu ráðherra og ráðuneytisstjóri fjármála í fótspor ágætra og endingargóðra gamanleikara, sem yljað hafa mönnum um hjartarætur í nokkra áratugi. Í bíó atti hinn þétti hinum granna jafnan á foraðið. Og í sjónvarpinu flutti ráðherra nokkrum sinnum landsföðurleg inngangsorð og lét ráðuneytisstjóra síðan skýra tölur á töflu.
Þessar tölur reyndust mesta forað, enda höfðu góðir hugarreikningsmenn nokkra skemmtun af túlkun þeirra. Þar varð eitthundrað þúsund króna mismunur hinn sami og tvöhundruð þúsund króna mismunur. Oftast voru tölur í munnlegri meðferð jafnaðar út í þann tug, sem heppilegra var að nota hverju sinni.
Í augum hátekjumannanna sitt hvorum megin við þessa merkilegu töflu var tugþúsunda munur í tekjuskattgreiðslum nánast enginn munur. Og minni munur var einfaldlega ekki marktækur. Munar þó marga um hverjar tíu þúsund krónur, jafnvel suma þeirra, sem komast á hæsta skattþrep.
Frumvarp ráðherrans og ríkisstjórnarinnar sveiflar lífskjörum manna til og frá eins og peðum á skákborði. Í þessari skák er kostnaður af gæzlu hvers barns útivinnandi konu talinn nema tæpum tuttugu þúsund krónum á ári, en ekki á mánuði, og annað er haft eftir því.
Er tilgangurinn með þessu gráa gamni að einfalda skattkerfið? Það var gefið í skyn í þættinum, þótt frumvarpið geri ráð fyrir aukinni blöndu afsláttar af skatti og frádráttar frá tekjum.
Sama var uppi á teningnum síðast, þegar ríkið krækti sér í aukið fé undir yfirskini frumvarps til einföldunar skattkerfisins. Þá lengdist skattseðillinn um helming og varð fyrst óskiljanlegur öllum almenningi. Og nú er sami ráðherra enn á peningaveiðum.
Er tilgangur frumvarpsins að svara gagnrýni liðins sumars og koma skattalögum yfir velsældarmenn, sem hingað til hafa verið sveitarómagar í skattskrám? Það var gefið í skyn í haust, þegar siðbótarfrumvarpi í skattamálum var lofað, en nú er minna talað um slíkt.
Raunverulega er markmið frumvarpsins að afla ríkissjóði meiri tekna. Og aðferðin er hin gamalkunna að leggja meira á þá, sem engu geta undan skotið og greiða nú þegar ríflega skatta. Hefðu menn þó getað vænzt yfirbótafrumvarps um verulega lækkun tekjuskatts, úr því að þessi sama ríkisstjórn var áður búin að auka hlut hins opinbera í þjóðarbúinu.
Ráðherra og ráðuneytisstjóri virtust harma, að reikningsdæmin sýndu verri útkomu einstæðra foreldra en núverandi skattkerfi sýnir. En ekki lögðu þeir fram nein reikningsdæmi um, hvernig skattar Guðjóns Styrkárssonar og Guðbjarts Pálssonar yrðu í hinu fyrirhugaða skattkerfi Gögs og Gokke.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið