Góður andi í viðræðum

Greinar

Viðræður ríkisstjórnarinnar við Alþýðusambandið ganga hægt, en vel og vinsamlega. Þetta eru mikilvægustu viðræðurnar af þeim, sem ríkisstjórnin á nú við flesta aðila efnahagslífsins. Þess vegna er ekki ónýtt, að góður andi skuli vera í þeim.

Til þessa hafa viðræðurnar einkum snúizt um launauppbætur til láglaunafólks. Með hugmyndinni um þessar uppbætur er stefnt að því að samræma tvö meginsjónarmið í efnahagsmálunum, tryggja endurreisn atvinnuveganna á þann hátt, að það komi sem minnst niður á láglaunafólki.

Í þessu felst einnig, að horfið er frá niðurstöðu kjarasamninganna í vetur sem leið, þegar hálaunamenn fengu yfirleitt töluvert meira en láglaunamenn. Eftir samningana voru menn sammála um, að það hefðu verið mistök að láta þá fara úr skorðum á þennan hátt. Og nú er verið að tala um að stíga skref til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu.

Gengissig og gengislækkun og aðrar ráðstafanir til að koma atvinnulífinu á traustari grundvöll hljóta að koma niður á lífskjörum þjóðarinnar. Við höfum lifað um efni fram á síðustu misserum og einkum á síðustu mánuðum. En hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu geta síður en aðrir borið skerðingu lífskjaranna. Þess vegna snúast viðræður ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins einkum um hag láglaunafólks.

Ekki hafa enn komið fram mótaða hugmyndir um, hvernig bæta megi láglaunafólki kjaraskerðingu efnahagsaðgerðanna. Ýmsar leiðir koma til greina og auðsjáanlega er æskilegast, að sem bezt samráð verði höfð um valið. Aðalatriðið er, að lausnin komi þeim að gagni, sem þurfa á henni að halda, og komi þar að fullu gagni, en útvatnist ekki með greiðslum til þeirra, sem betur mega sín.

Nefnt hefur verið, að uppbótin komi að fullu á mánaðartekjur, sem eru 50.000 krónur eða lægri, og að hluta til á tekjur, sem eru milli 50.000 og 60.000 króna, en ekki á tekjur þar fyrir ofan. Þegar vinstri flokkarnir voru að ræða þessi mál í sambandi við stjórnarmyndunartilraunir þeirra í sumar, voru þeir með markið við 35.000 krónur, en það er greinilega fulllág tala.

Viðræðuaðilar hafa enn ekki orðið sammála um, hve lengi vísitöluskerðingin og láglaunauppbótin eigi að gilda. Ríkisstjórnin hefur talað um tólf mánuði en Alþýðusambandið sex. Unnt ætti að vera að finna lausn á þessum ágreiningi.

Nokkuð hefur verið rætt um fjölskyldubætur og niðurgreiðslur. Í ljós hefur komið, að fjölskyldubæturnar njóta minni vinsælda en áður, enda hefur notkun þeirra sem hagstjórnartækis gengið út í öfgar. Fulltrúar Alþýðusambandsins vara hins vegar við mikilli skerðingu niðurgreiðslna, þótt þeir viðurkenni jafnframt, að óheilbrigt sé, að niðurgreiðslur séu meiri en sem nemur dreifingarkostnaði.

Í viðræðunum hefur komið fram áhugi á að kanna skattakerfið. Ríkisstjórnin mun í dag eða næstu daga leggja fram upplýsingar um áhrif síðustu breytingar á því. Að þeim upplýsingum fengnum má búast við töluverðum umræðum um skattamál.

En kjarni málsins er sá, að báðir aðilar líta á vandamálið sem verkefni til úrlausnar og hafa því hingað til tekið ábyrga afstöðu til þess.

Jónas Kristjánsson

Vísir