Góðir strákar og fínir kallar.

Greinar

Staðan í landhelgismálinu er sérdeilis hættuleg þessa dagana. Ýmsar freistingar sækja að íslenzkum ráðamönnum, einkum þeim, sem að undanförnu hafa átt viðræður við erlend stórmenni. Er full ástæða til að biðja ríkisstjórnina um að vara sig á þeim sáttahugmyndum, sem hún hefur fengið til meðferðar í þessari viku.

Ráðherrarnir mega ekki gleyma bakgrunni málsins, hafréttarráðstefnunni. Þótt hún hafi gengið silalega, er hún samt hezti bandamaður okkar. Í nýafstaðinni lotu hennar varð enn ofan á orðalag, sem styrkir stöðu okkar í þorskastríðinu. Þar segir efnislega, að strandríki eigi einhliða að ákveða aflahlut annarra ríkja.

Þetta sýnir, að enn verðum við að hafa þolinmæði og úthald. Við megum ekki rasa um ráð fram í samningum, þegar hver nýr maður færir okkur bætta samningsaðstöðu. Öllum er líka ljóst, að ekki kemur til greina að gera við Breta langtímasamning til eins eða tveggja ára, sem síðan megi framlengja að meira eða minna leyti óbreyttan.

Freistingarnar felast líka fyrst og fremst í skammtímasamningi, er brúa eigi bilið fram að niðurstöðu hafréttarráðstefnunnar. Þar eru ýmsar hættur á ferðinni og auðvelt aðó gera mistök. Enda sýnir líka sagan, að íslenzkir ráðamenn hafa tilhneigingu til að túlka af mikilli bjartsýni þá samninga, sem þeir gera.

Skammtímasamningur er einskis virði, er hann er opinn í aftari endann. Hann er opinn í þann endann, ef hann felur ekki í sér orðrétta viðurkenningu Breta á 200 mílna efnahagslögsögu Íslendinga. Hann er opinn í þann endann, ef hann felur ekki í sér orðrétta viðurkenningu Breta á sjálfdæmi Íslendinga að tímabilinu liðnu. Orðalag í þessum efnum má ekki vera óljóst, því að brezkir ráðamenn eru mun færari í lagakrókum en okkar ráðamenn.

Þetta er samt ekki versta hættan. Enn verra fyrir okkur væri að fá nú “bókun sex” framkvæmda hjá Efnahagsbandalaginu til bráðabirgða. Þá færu útflutningsatvinnuvegirnir að undirbúa markaðsöflun í löndum bandalagsins án þess að hafa neina vissu um framtíðina.

Ef Bretar hafa að sex mánaða samningstíma liðnum nokkra minnstu möguleika á að fá afturkallaða framkvæmd þessarar bókunar um tollalækkanir á íslenzkum afurðum, komast útflutningsatvinnuvegir okkar í sjálfheldu. Það mundi svo aftur leiða til þess, að við neyddumst til að vera eftirgefanlegir í framlengingu landhelgissamningsins við Breta.

Bráðabirgðasamningur við Breta er stórhættulegur, nema þar sé orðrétt fjallað um, að “bókun sex” geti ekki fallið úr gildi og að þeirri ákvörðun fylgi skrifleg staðfesting Efnahagsbandalagsins.

Ef eitthvað skortir á eitt þessara atriða, kemur bráðabirgðasamningur við Breta ekki til greiÍna. Þá væri betra, að Bretar héldu áfram að veiða hér í skjóli ofbeldis, jafnvel þótt aflamagnið yrði ef til vill eitthvað meira en kveðið yrði á um í samningi.

Ríkisstjórnin má ekki kikna í hnjáliðunum þessa dagana. Það er ekkert unnið með því að vera góðu strákarnir í augum fínu kallanna í stóru útlöndunum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið