Góð prófkjör, betri og bezt

Greinar

Prófkjör eru ekki fullkomin, þótt þau séu stórkostleg leið til eflingar lýðræðis. Menn þurfa að læra af reynslu vetrarins og sníða af þeim ýmsa galla.

Flokkseigendur margra flokka og aðrir þeir, sem halloka hafa farið í prófkjörum, gera um þessar mundir harða hríð að þeim og draga upp stórlega ýkta mynd af vandamálum, sem þeim gætu verið tengd.

Þessir sorgmæddu menn segja, að svokölluð fjölflokkaatkvæði ráði úrslitum prófkjara, því að fjöldi manns taki þátt í þeim hjá fleirum en einum flokki. Þeir segja, að óvænt úrslit prófkjara valdi andúð og úlfúð innan flokka.

Með þessum fullyrðingum eru þeir að reyna að grafa undan áliti fólks á prófkjörum. Þá skortir sannanir fyrir kenningum sínum. Samt er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra og haga prófkjörum á þann hátt, að ekki orki tvímælis.

Koma má Í veg fyrir fjölflokkaatkvæði með því að fara að bandarískri fyrirmynd og hafa prófkjör allra stjórnmálaflokka á einum og sama degi. Heppilegast væri þá, að hinar opinberu kjörstjórnir sæju um þau og hefðu sömu kjörstaði fyrir alla flokka. Þetta gætu notfært sér þeir flokkar, sem vilja hafa prófkjör. Jafnframt væru önnur prófkjör bönnuð.

Þessi leið kæmi hins vegar ekki í veg fyrir, að fallkandidatar reyni að hefna þess í kosningum, sem hallaðist í prófkjörum. Til að útiloka þann vanda líka væri bezt, að alþingi samþykkti tillögu Jóns Skaftasonar um sameiningu prófkjara og kosninga.

Samkvæmt þeirri leið mundu kjósendur velja frambjóðendur af óröðuðum lista í kosningum, alveg eins og þeir gera nú í prófkjörum. Hlutkesti yrði látið ráða, hvar í stafrófinu byrjað væri og síðan kæmu nöfn frambjóðenda í stafrófsröð.

Kjósendur mundu setja tölustafina 1, 2, 3 o.s.frv. við nöfn frambjóðenda eins lista og í þeirri röð, sem þeir vilja hafa þá. Þeir mundu hins vegar ekki merkja neitt við lista annarra flokka.

Þessi leið er róttækari og mun betri en hin fyrri. Hið persónulega val, sem prófkjörin hafa fært kjósendum, mundi flytjast inn í kosningarnar sjálfar, þar sem það á auðvitað bezt heima.

Öllum þorra þjóðarinnar er ljóst, að núverandi kosningakerfi með fyrirfram röðuðum listum er ófært. Prófkjörin eru tilraun til að bæta nokkuð úr skák. Sem slík hafa þau gefizt mjög vel. Agnúar þeirra hafa verið stórlega ýktir í áróðri þeirra, sem helzt þrífast á lokuðum klíkufundum.

Meðan raðað er á lista í kosningum eru prófkjörin í hæsta máta nauðsynleg. Almenningur mun ekki láta bjóða sér afnám þeirra. Og hann mun í minnkandi mæli kjósa þá flokka, sem ekki þora að hafa prófkjör.

Það er líka ljóst, að bezta leiðin, leið Jóns Skaftasonar, er ekki fær að sinni. Alþingismenn hafa hver um annan þveran fyllzt ótta um framtíð sína og finna opnu listakjöri allt til foráttu. Sú afstaða er eftir öðru framferði þingmanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið