Góð hugmynd en óunnin

Greinar

Umræðan um sölu veiðileyfa í sjávarútvegi hefur aukizt og orðið fjölbreyttari að undanförnu. Sýnist að sjálfsögðu sitt hverjum um, hvort beita eigi þessari aðferð til að tempra sóknina i fiskistofna og ná hámarksverðmæti á hverja sóknareiningu.

Þeir hagfræðingar, sem um málið hafa fjallað, eru yfirleitt hlynntir sölu veiðileyfa í sjávarútvegi. Sama er að segja um iðnrekendur sem þrýstihóp og um einstaka áhrifamenn í röðum þeirra. Talsmenn útgerðar og fiskiðnaðar bafa ýmist lýst efasemdum eða eru málinu hreinlega andvígir.

Mótbárurnar gegn sölu veiðileyfa í sjávarútvegi byggjast einkum á þrennum rökum. Í fyrsta lagi standi að baki hugmyndinni óskir iðnrekenda um gengislækkun. Í öðru lagi sé unnt að vernda fiskistofna eftir öðrum leiðum. Og í þriðja lagi séu óljós mörg framkvæmdaatriði, einkum þegar byggðasjónarmið koma til sögunnar.

Fyrstu gagnrökin eru nærri lagi, þótt þau snerti ekki kjarna málsins. Sölu veiðileyfa hlýtur að fylgja gengislækkun eða frjálst gengi, sem mundi leiða til hliðstæðrar breytingar. Og gengislækkunin mundi bæta samkeppnisaðstöðu iðnaðarins, bæði þess, sem keppir við innflutning, og þess, sem keppir á erlendum markaði.

Segja má, að gengislækkun leiði í fyrstunni til skerðingar lífskjara, því að innfluttar vörur hækka í krónutölu. En í rauninni er gengislækkun aðeins viðurkenning á orðnum hlut, fyrr eða síðar óhjákvæmileg. Og þar að auki eflir gengislækkun samkeppnishæfni Íslands gagnvart útlöndum og leiðir á þann hátt til betri lífskjara, þegar til lengri tíma er litið.

Önnur gagnrökin eru marklítil. Að vísu eru til margar leiðir til að vernda fiskistofna. En flestum er þeim sameiginlegt að draga úr arðsemi útgerðarinnar. Ýmist er leyfður hámarksafli á skip, skorið á veiðitímabilið, úthlutað veiðisvæðum, veiðileyfi skömmtuð með pólitísku skæklatogi, oftast samfara aflatakmörkunum.

Allar þessar leiðir valda því, að of margir sjómenn eru á of mörgum og of úreltum skipum, sem nota of mikla olíu. Deila má um, hvort flotinn mætti vera helmingi minni, en ekki um það, að arðsemi hans væri stórkostlega miklu betri, ef stærðin væri hæfileg, alténd mun minni en hún er nú.

Eina leiðin, sem kemst næst því að tryggja hæfilega stærð flota með hæfilegum tegundum skipa með hæfilegri olíunotkun og mesta einvalaliði sjómanna og skipstjórnarmanna er sala veiðileyfa til þeirra, sem hæst geta boðið á grundvelli framangreindra markmiða.

Þriðju gagnrökin eru mikilvægust og eiga fullan rétt á sér. Hugmyndin um sölu veiðileyfa hefur enn ekki verið hugsuð til fulls. Margvísleg ljón munu birtast á veginum, þegar til framkvæmda kemur. Skýrast er að taka dæmi af byggðavandamálum.

Við skulum ímynda okkur, að eitt árið séu Norðfirðingar mjög bjartsýnir vegna góðra skipa og manna og lítilla fjarlægða. Þeir bjóða þvi hátt og fá nokkur leyfi. En Siglfirðingar með verri skip og meiri fjarlægðir geta minna boðið og fá ekki leyfi. Hvað á þá að gera í atvinnumálunum þar?

Við gctum lika ímyndað okkur, að Siglfirðingar bíti á jaxlinn og mæti næsta ár til leiks með beztu skipin og beztu skipstjórana og yfirbjóði Norðfirðinga. Hvað eiga hinir síðarnefndu þá að starfa?

Í rauninni mundi slík samkeppni valda gífurlegum framförum í sjávarútvegi. En félagslegu vandamálin yrðu gífurleg, svo ekki sé minnst á niðurgreiðslur, sem einstök sveitarfélög mundu leiðast út í. Ýmis atriði af þessu tagi þarf að brjóta til mergjar og þróa áfram hugmyndina um sölu veiðileyfa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið