Gleymum ekki einu

Greinar

Verkefni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa breytzt smám saman þá tvo áratugi, sem það hefur verið hér óslitið. Áherzlan á beinar varnir Íslands hefur minnkað, en hið almenna eftirlit með hernaðarlegum hreyfingum á Norður-Atlantshafi hefur aukizt.

Við höfum ekki gert okkur nægilega góða grein fyrir þörfum okkar á þessu sviði. Þess vegna er eðlilegt og tímabært, að samningurinn um varnirnar sé endurskoðaður. Hann ætti raunar að vera í stöðugri endurskoðun.

Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin ekki aflað sér mikilla gagna um málið. Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins hefur samið skýrslu um efnahagsleg áhrif varnarliðsins. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hefur samið skýrslu um gildi varnarliðsins fyrir sameiginlegar varnir bandalagsins. Og Einar Ágústsson utanríkisráðherra hefur gefið skýrslu um ferð sína til Bandaríkjanna og viðræður sínar þar um varnarliðið.

Fjórða skýrslan og ef til vill sú athyglisverðasta er fengin frá Svíþjóð. Íslenzka ríkisstjórnin snéri sér til sænsku stjórnarinnar, vegna þess að Svíþjóð er hlutlaust ríki utan varnarbandalaga Sænska stjórnin vísaði á óháða stofnun þar í landi, sem fæst við athuganir á hermálum. Sú stofnun samdi skýrslu, þar sem fram kom sú niðurstaða, að full þörf væri á varnarliði á Íslandi.

Þar með er allt upp talið. Sjálfir höfum við trassað að mennta menn í hernaðarlegum fræðum, svo að innanlands er þekkingin á þessum sviðum ákaflega takmörkuð. Fyrsta skrefið í endurskoðun varnarsamningsins ætti raunar að felast í öflun slíkrar þekkingar.

Óvíst er, að öryggishagsmuna Íslendinga verði nægilega gætt í væntanlegri endurskoðun varnarsamningsins. Fulltrúar Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins munu leggja mesta áherzlu á að sýna íslenzkum ráðamönnum fram á gagnsemi varnarliðsins fyrir sameiginlegar varnir Vesturlanda og leggja minni áherzlu á gildi liðsins fyrir Ísland sérstaklega, því að þeir telja Íslendinga hafa takmarkaðan áhuga á því.

Trúlega munu íslenzkir ráðamenn leggja áherzlu á, að hvimleitt sé að hafa hér erlent varnarlið. Þeir munu setja á flot hugmyndir um, að Íslendingar taki að sér að einhverju eða verulegu leyti það almenna eftirlit, sem rekið er frá Keflavíkurflugvelli. Viðræðurnar geta vel leitt í ljós, hvað sé raunhæft í slíkum hugmyndum.

Áhugi Íslendinga á vörnum sjálfs landsins síns er hörmulega lítill. Þess vegna er hætt við, að öryggishagsmunir landsins verði útundan í viðræðunum. Reynt verður að bræða saman það íslenzka sjónarmið, að varnarliðið sé hvimleitt, og það sjónarmið viðsemjendanna, að varnarliðið sé nauðsynlegt fyrir sameiginlegt öryggi Vesturlanda.

Sumir íslenzku ráðherranna munu reyna að spilla viðræðunum, svo að landið verði gersamlega varnarlaust. En jafnvel þótt hinir verði ofan á og samið verði um áframhaldandi varnir í nýju formi, er trúlegt, að hinum sérstöku varnarhagsmunum Íslands verði ekki nægilegur gaumur gefinn. Þessa ábendingu ættu EinarÁgústsson og utanríkisráðuneytið að taka til alvarlegrar athugunar.

Jónas Kristjánsson

Vísir