Séu 1500 fyrirtæki svo skuldsett, að þau hljóta að verða gjaldþrota, er rétt að framlengja ekki hengingarólina. Eðlilegt er, að fjöldi fyrirtækja hrynji í bankahruni og eftir bankahrun. Aðrir taka upp þráðinn. Þeir ráða þá, sem missa vinnuna. Þeir kaupa tækin eða taka þau á leigu. Þannig gerast kaupin á eyrinni við kerfi markaðsbúskapar. Gefist kvótagreifar upp á braskinu, koma aðrir og kaupa reksturinn eða taka hann á leigu af bönkum. Ráða starfsfólkið áfram í vinnu. Allt kostar þetta ýmis óþægindi á yfirfærslutímanum. En allt er þetta nauðsynleg hreingerning til að vinza út bjána og braskara hrunsins.