Gengið í svefni

Greinar

Hálft annað ár er liðið síðan Verzlunarráð Íslands hóf tilraunir til að koma á fót eftirliti með upplagi og sölu dagblaða. Eitt meginmarkmiðið var, að auglýsendur ættu kost á áreiðanlegum upplýsingum um misjafna útbreiðslu dagblaðanna.

Í þessu skyni efndi Verzlunarráð til samstarfsnefndar dagblaða og auglýsingastofa. Ráðið lagði fyrir nefndina tillögur um mjög vandað eftirlit, sem var langt umfram einfalt eftirlit með prentuðu upplagi.

Samkvæmt tillögum ráðsins átti að fylgjast með raunverulegri sölu blaðanna með því að skoða bókhald þeirra og greina tekjur þeirra í sundur. Sérstakur trúnaðarmaður Verzlunarráðs átti að annast þetta til að hindra hvern einasta möguleika á útblásnum fullyrðingum um sölu einstakra blaða.

Samstarfsnefndin tók vel þessum hugmyndum. Þar var rætt um að finna einnig skiptingu sölunnar milli lausasölu og áskriftar, milli landshluta og milli þjóðfélagshópa. Hafði Verzlunarráð yfir að ráða ýtarlegum gögnum um framkvæmd margslungins eftirlits í nágrannalöndunum.

Að áliðnum vetri í fyrra lagði ráðið svo fyrir nefndina uppkast að samningi um útbreiðslueftirlitið. Var þar samkomulag um að ganga frá þessu uppkasti lítið breyttu til undirskriftar málsaðila. Þá var búið að leggja mikla vinnu í málið og allir nema Þjóðviljinn þóttust vilja vera með.

Tæpt ár er síðan samningurinn var sendur dagblöðunum til undirskriftar. Dagblaðið og Morgunblaðið skrifuðu þegar undir. Hin blöðin fóru aftur á móti undan í flæmingi.

Fyrst höfðu þau að yfirvarpi, að stjórnir viðkomandi blaða yrðu að ræða samninginn áður en hann yrði formlega undirritaður. Að nokkrum mánuðum liðnum dugði þetta yfirvarp ekki lengur og var þá gripið til grófari bragða.

Framkvæmdastjórar litlu blaðanna, sem ekki vildu undirrita, fóru að tala um samkomulag samstarfsnefndar dagblaðanna sem “uppkast” Verzlunarráðs, sem athuga þyrfti nánar. Þeir fóru að tala um, að eftirlit þyrfti að hafa með raunverulegri sölu, þótt samkomulagið hefði einmitt fjallað um slíkt eftirlit.

Þessir útúrsnúningar hafa nú staðið í tæpt ár. Nýjasti brandarinn á því sviði er, að Vísir segist nú hafa sent hinum dagblöðunum bréf, þar sem hvatt sé til upplagseftirlits, sem falið verði Verzlunarráði að sjá um! Ætla mætti, að stjórnendur Vísir hafi gengið í svefni í hálft annað ár og hrökkvi nú upp með andfælum.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að það eru aðeins Dagblaðið og Morgunblaðið, sem þora að láta komast upp um raunverulega sölu sína. Litlu blöðin mega ekki til þess hugsa, að alþjóð fái tækifæri til að hlæja að hinum röngu og útbelgdu tölum, sem þau hafa hingað til haldið fram um upplag sitt og sölu.

Þau blöð, sem seljast hér á landi, eru Dagblaðið og Morgunblaðið. Í þeim samanburði er sala annarra blaða smámunir einir. Erfiðleikar Verzlunarráðs í útbreiðslueftirlitinu eru bara staðfesting á þessu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið