Ólöglegt allsherjarverkfall í tvo daga er ekki nauðsynlegt vopn í baráttu launþegasamtaka við ríkisstjórnina. Þau gátu náð svipuðum árangri með löglegum aðferðum.
Verkfallið er afsakað með neyðarrétti. Verður þó ekki séð, að tveir dagar séu nein töfralausn í baráttunni gegn rýrnandi kaupmætti á árinu. Talið um neyðarrétt er bara dæmi um, að menn taka stundum mikið upp í sig, þegar leikurinn æsist.
Athyglisvert er, að engar efasemdir um réttmæti hins ólöglega verkfalls koma fram í máli forustumanna þess. Einnig er athyglisvert, að verkfallið hefur yfirleitt verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í stjórnum einstakra félaga.
Athyglisverðast er þó, hve mikils stuðnings allsherjarverkfallið nýtur í röðum almennra launþega. Svo virðist sem þátttakan í því verði töluverð hjá þeim félögum, sem að því standa.
Alvarlegast í þessu öllu er svo, hversu lítið mál mönnum finnst að brjóta lög. Þar endurspeglast almennt virðingarleysi gagnvart lögum og rétti. Þetta virðingarleysi á sér svo aftur rætur í ófullkomnum, úreltum og jafnvel spilltum lögum.
Allur þorri manna telur sjálfsagt að brjóta gjaldeyrislög og skattalög. Og fjöldi manna brýtur lög um smygl og bruggun. Þar á ofan sér fólk, að alls kyns gæðingar og aðstöðubraskarar blómstra í skjóli laga og reglna.
Þetta er ekki það þjóðfélag, sem við vildum, að væri hér á landi. Við vildum, að hér væri traust lýðveldi með lögum og reglum, sem við getum virt í stóru og smáu.
Forustumenn stjórnmálaflokkanna ættu að leggja saman tvo og tvo. Þeir ættu að beita sér fyrir breytingu á lögum, sem almenningur brýtur og aðstöðubraskarar nota.
Á slíkan hátt ætti smám saman að vera unnt að byggja upp þjóðfélag, þar sem fólki finnst sjálfsagt að fara að lögum og lætur til dæmis ekki hvarfla að sér að fara í ólöglegt allsherjarverkfall.
Forustumenn launþegasamtaka hafa harma að hefna. Samt er það illt verk þeirra að grafa undan lýðveldinu með ólöglegu allsherjarverkfalli. Siðferðisstyrkur þjóðfélagsins var nógu veikur fyrir.
Forustumennirnir sáust ekki fyrir og reiddu of hátt til höggs. Þeir hafa gefið slæmt og hættulegt fordæmi. Þrátt fyrir spillingu þjóðfélagsins eru enn sumir, sem ekki hafa brotið lög. Þeir hefja lögbrotaferil sinn á morgun.
Enn einum steini hefur verið kippt undan virki íslenzks réttarríkis með því að taka í notkun nýtt vopn í kjaramálum. Vígbúnaðarkapphlaup hefur víðar vond áhrif en í alþjóðastjórnmálum.
Forustumenn launþegasamtaka gátu mótmælt kjaraskerðingu með allsherjarverkfalli, er boðað hefði verið með löglegum hætti. Þeir þurftu alls ekki að egna fólk gegn lögum og rétti.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið