Gefur góðan tón

Greinar

Breta skortir rafmagn og hita, ekki vegna aðgerða Araba, heldur vegna óbilgirni eigin manna. Félög kolanámumanna hafa bannað yfirvinnu að undanförnu og lestarstjórar fara sér hægt við störf. Þannig fer sjálfseyðingarhvötin með Breta í kjaradeilum, einmitt þegar orkuskortur er að hvolfast yfir iðnaðarþjóðir heims.

Ólíkt höfumst við að. Fréttir af samningamálum hér heima eru ólíkt hugnanlegri. Ríkisvaldið og opinberir starfsmenn hafa gert með sér frjálsan samning án úrskurðar kjaradóms. Venjulega hefur kjaradómur orðið að koma til skjalanna, þegar í óefni er komið, svo að óvenju vel og skynsamlega virðist hafa tekizt til í þetta sinn. Gefur það góðan tón og ætti að hafa áhrif á hina almennu kjarasamninga, sem nú standa yfir.

Meginlína samningsins við ríkið virðist vera í samræmi við almennar skoðanir um þessar mundir. Launahækkunin er mest hjá þeim lægst launuðu og minnkar eftir því sem ofar dregur í launastiganum. Hinir lægst launuðu fá 25% hækkun, hinir hæst launuðu 3% hækkun, en að meðaltali er hækkunin um 6%. Menn viðurkenna almennt, að hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu hafa ósæmilega lág laun í því verðbólguástandi, sem nú ríkir. Þess vegna var nú brýnna að bæta kjör þeirra en að hækka laun almennt.

Þetta styttir auðvitað launastigann og skapar hættu á, að duglegir og menntaðir menn fari úr þjónustu ríkisins á frjálsa markaðinn eða jafnvel til útlanda, þar sem launamunur er margfalt meiri. Þess vegna má þess ekki vera langt að bíða, að traustari stjórn taki við efnahagsmálum og fjármálum landsins og aðstaða myndist til að bæta einnig kjör mestu hæfileikamannanna. En um sinn verða þeir að bíða, því að kjarabætur láglaunafólks er brýnna verkefni.

Sá ljóður er á þessum annars ánægjulegu samningum, að starfsmatið var fellt úr gildi. Starfsmatið var merkileg tilraun til vísindalegs mats á störfum í þjóðfélaginu. Það gaf vonir um, að umræður um launamun starfshópa kæmust á skynsamlegra stig. Og þessi tilraun gaf góða raun í fyrstu.

Auðvitað má alltaf endurskoða og leiðrétta slíka tilraun. Skoðanir manna geta breytzt á því, hve launamunur eigi að vera mikill. Og skoðanir geta líka breytzt á því, hve þungvægir einstakir liðir matsins eigi að vera. Allt þetta mátti gera án þess að fleygja matinu sjálfu fyrir róða. Ef matið endurspeglaði ekki lengur frjálsa markaðinn, átti að breyta því til samræmis við það.

Þannig hefði smám saman átt að vera hægt að færa matið til samræmis við raunveruleikann og gera það sífellt að gagnlegra hjálpartæki. En barninu var fleygt út með baðvatninu eins og enskurinn segir.

Jónas Kristjánsson

Vísir