Gagnslítil olíusambönd.

Greinar

Engum virðist detta í hug, að forstjórar íslenzku olíufélaganna geti útvegað olíu frá fyrrverandi móðurfélögum sínum, Exxon, Shell og British Petroleum. Sú stutta staðreynd segir langa sögu um ástand íslenzkra olíukaupa.

Hin vestrænu sambönd hafa samt ekki rofnað á aldarfjórðungi sovétviðskipta. Smurolía hefur verið keypt af móðurfélögunum og raunar ýmsar aðrar olíuvörur umfram samningana við Sovétríkin.

Íslenzku olíufélögin eru í stöðugu sambandi við móðurfélögin. Þau senda yfirmenn og aðra starfsmenn á námskeið til þeirra. Því ættu að vera til viðskiptasambönd, sem gerðu okkur kleift að losna úr vítahring Rotterdamverðs Sovétríkjanna.

Íslenzku olíufélögunum ætti líka að vera sérstakt áhugaefni að losna úr sovétviðskiptunum og hefja á ný þau viðskipti, sem voru á sínum tíma forsenda þess, að hér á landi tæki því að hafa þrjú olíufélög.

Forusta ríkisins um olíukaup frá Sovétríkjunum hefur gert samkeppni í olíuverzlun að hálfgerðum skrípaleik. Ríkisforsjáin hefur smám saman gefið byr undir báða vængi þeirri skoðun, að þjóðnýting olíuverzlunar komi til greina.

Ráðamenn olíufélaganna hafa fallið í þessa gryfju. Á 25 árum hafa þeir samlagazt hóglífi embættismennskunnar, fegnir að vera lausir við streitu samkeppninnar. Þeir geta ekki lengur útvegað olíu eftir leiðum frjálsrar verzlunar.

Nú hefur olíuviðskiptanefnd ríkisins verið falið það verkefni, sem fela hefði átt olíufélögunum, ef einhver dugur væri í þeim. Hún á með aðeins nokkurra vikna fyrirvara að finna olíu, sem geti komið í stað sovézkrar.

Olíuviðskiptanefnd stóð sig vel, þegar hún komst að raun um, að sovézk olía á Rotterdamverði til Íslands er 70% dýrari en olía á Vesturlöndum og að hún er dýrari en nokkur önnur útflutningsolía frá Sovétríkjunum.

Hin er þrautin þyngri að finna ný og varanleg viðskiptasambönd á örfáum vikum, þegar olíufélögin hafa ekki getað það á föstum samböndum. Nefndin hefði þurft nokkra mánuði til stefnu, ekki vikur.

Ekki er auðvelt að fá olíu undir Rotterdamverði. Olíuskorturinn í heiminum veldur því, að gömul viðskiptasambönd ganga fyrir nýjum og að olía á meðalverði er skömmtuð. Lausakaup þar fyrir utan mælast á Rotterdamverði.

Gera má því ráð fyrir, að samningamenn Íslands verði að fara Canossa-för til Moskvu að nokkrum vikum liðnum til að semja um framhald olíukaupa á afarkjörum Sovétríkjanna. Olía þeirra er einfaldlega sú eina, sem við getum nú náð í.

Hugsanlegt er að taka þá áhættu að semja að þessu sinni til skamms tíma við Sovétríkin, til dæmis til hálfs árs. Það yrði þá gert í trausti þess, að olíuviðskiptanefnd næði árangri á nokkrum mánuðum.

Ef til vill er þetta of mikil svartsýni. Auðvitað vonum við, að nefndin vinni afreksverk á skömmum tíma. Hún hefur líka töluvert svigrúm í verði, því að við getum hagnazt verulega, þótt hún finni ekki olíu á meðalverði.

Milli meðalverðs og okurverðs er breitt bil. Hvert skref í átt frá okurverði er hagkvæmt, þótt meðalverð náist ekki í einum áfanga. Mikilvægast er að komast að traustum viðskiptum, svo að ekki verði hætta á olíuskorti.

Hlálegast í þessum sorgarleik er, að hér skuli vera þrjú olíufélög, sem eru orðin svo miklar ríkisstofnanir, að þau geta ekki útvegað landinu olíu af eigin rammleik.

Eftir 25 ára hlé hafa þau tækifæri til að sanna tilverurétt sinn, en geta það þá ekki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið