Gagnrýnin hugsun.

Greinar

Gagnrýnin hugsun almennings er ein helzta forsenda 1ýðræðisins. Hin ytri form lýðræðiskerfisins duga ekki, ef umræða um þjóðfélagslnál fer aðeins fram í fámennum hópum án þátttöku almennings. Þau duga ekki, ef almenningur lætur sig þessa umræðu litlu skipta.

Í gagnrýninni hugsun felst geta til að skoða mál ofan í kjölinn og mynda sér skoðanir á grundvelli upplýsinga og raka. Fordómar, vanaviðjar og jámennska eiga ekki heima í gagnrýninni hugsun, en eru því miður allt of útbreidd, bæði hér á landi og annars staðar.

Þjóðfélagið er sífellt að verða flóknara og torskildara venjulegu fólki. Þessu þarf því að fylgja aukin gagnrýni í hugsun almennings, ef ekki á að myndast gjá milli virkra ráðamanna annars vegar og afskiptalítils almennings hins vegar.

Því miður er mönnum veitt heldur lítil aðstoð á þessu sviði. Skólar og fjölmiðlar hafa yfirleitt ekki gætt hlutverka sinna í eflingu gagnrýninnar hugsunar Í þjóðfélagsmálum.

Skólarnir eru svo önnum kafnir við að búa til fagmenn, að þeir mega ekki vera að því að búa til borgara og kjósendur. Einn megintilgangur grunnskólans ætti þó að vera sá að gera unglingana færa um að fylgjast með þjóðfélagsmálum og beita atkvæði sínu.

Í skólunum á að fjalla um yfirborð og undirdjúp þjóðfélagsins, segja frá ýmsum kenningum um eðli þjóðfélagsins og æskilega þróun þess, svo og að ræða um stefnur og störf stjórnmálaflokka og ríkisstjórna, svo að dæmi séu nefnd.

Ástandið er ekki betra í fjölmiðlunum. Útvarp og sjónvarp eru kirfilega bundin í viðjar óhlutdrægnisreglna. Og dagblöðin hafa verið of upptekin af hinni pólitísku baráttu, auk þess sem þar virðist víða ríkja sá misskilningur, að órökstuddar dylgjur þeirra og persónuníð séu eins konar gagnrýni.

Eitt af því, sem bætir úr skák, er birting kjallaragreina eftir áhugamenn og sérfræðinga í þjóðfélagsmálum, þar sem þeir setja fram á skýru máli skoðanir sínar, studdar vönduðum rökum og upplýsingum. Slíkar greinar geta orðið til að vekja blundandi hugsun lesenda og geta leitt þá til sjálfshjálpar í gagnrýninni hugsun.

Enn mikilvægari þjónusta fjölmiðla á þessu sviði felst í aukinni viðleitni til að afla frétta, sem kafa djúpt undir slétt og fellt yfirborð þjóðfélagsins. Með þeim hætti er unnt að sýna almenningi raunveruleikann aó baki silkitjaldanna.

Hvorki í fréttaköfun né í kjallaragreinum eru íslenzkir fjölmiðlar vel á vegi staddir. Nokkur hreyfing hefur þó verið í rétta átt á síóustu mánuðum. Vonandi verður sú þróun hraðari á næstunni, því að mikið er í húfi.

Lýðræðið blómstrar, ef hinir venjulegu borgarar geta áttað sig á þjóðmálunum í heild og einstökum þáttum þeirra, geta séð í gegnum rugl og blekkingar og geta beitt gagnrýninni hugsun sinni í verki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið