Gabb á gabb ofan

Greinar

Alþingi mun í dag fallast með miklum meirihluta á landhelgissamninginn við Breta. Líklega hefði þessi meirihluti orðið minni, ef sannleikurinn um innihald samningsins hefði komið í ljós strax eftir komu Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra frá fundi hans með Heath forsætisráðherra í London.

Þá var gefið í skyn, að samningurinn væri alls ekki eins slæmur og hann síðan reyndist vera. Og þar sem flestir stjórnmálamenn okkar eru miklir friðarins menn, voru þeir fegnir, að samkomulag skyldi takast. Síðan treystust þeir ekki til að taka aftur samþykki sitt, þegar.sannleikurinn kom smám saman í ljós.

Þegar Ólafur kom heim, sagði hann, að Íslendingar hefðu sjálfdæmi um, hvenær hvert veiðihólf væri lokað, að því tilskildu, að einungis eitt hólf væri lokað í einu. Útvegsmenn lögðu þá fram tillögu um þessa lokun, sem var okkur í hag, en Bretum í óhag.

Þegar samningurinn var svo birtur, kom í ljós, að það voru ekki Íslendingar, heldur Bretar, sem höfðu haft sjálfdæmi um þetta mál. Lokunartíminn var nokkurn veginn alveg eftir óskum Breta. Hólfaskiptingin er semsagt ekkert annað en blekking, sem dregur ekki hið minnsta úr aflamöguleikum Breta.

Landhelgisgæzlan hefur undanfarin ár talið erlenda togara á Íslandsmiðum. Guðlaugur Gíslason alþingismaður hefur kannað skýrslurnar um talninguna og komizt að raun um, að til þessa hafa brezkir togarar yfirleitt ekki verið í hólfunum á þeim árstíma, sem þau eiga að vera lokuð.

Einnig má benda á, að sérfræðingar okkar hafa reiknað út, að hólfaskiptingin og hin sérstöku friðunarsvæði valdi samanlagt ekki nema 3% aflaminnkun Breta. Og líklegt má telja, að friðunarsvæðin eigi obbann af þessum 3%.

Þegar Ólafur kom heim, spurðist út, að samið hefði verið um 130.000 tonna hámarksafla Breta hér við land. Þegar samningurinn var svo birtur, kom í ljós, að ekkert slíkt hámark var í honum. Þess var einungis getið í inngangi, að miðað væri við eða áætlað, að afli Breta yrði um það bil 130.000 tonn á ári. Slíkt orðalag leyfir að minnsta kosti 10% frávik í báðar áttir. Það þýðir, að Bretar geta fiskað 145.000 tonn á ári án þess að brjóta samninginn.

Hólfaskiptingin er marklaus og aflamagnsklausan marklítil eins og hér hefur komið fram. Þar við bætist, að takmörkun fjölda hinna brezku skipa er sumpart fremur fræðileg en raunveruleg. Ef þau skip, sem leyfi hafa til veiða á Íslandsmiðum, einbeita sér að þeim veiðum, geta hæglega verið hér um 65 skip í senn. En í reynd hafa þessi brezku skip ekki verið nema 40-50 í senn hér við land. Bretar geta því, ef þeir vilja, aukið sókn sína á Íslandsmið í fullu samræmi við ákvæði samningsins.

Áður var vitað, að í samningnum fælist engin viðurkenning Breta á 50 mílunum að loknum tveggja ára samningstímanum. Ennfremur, að Íslendingar hefðu aðeins hálfa lögsögu á hinu umdeilda svæði. Það er því engin furða, þótt margir þingmenn hafi í gær stutt samninginn með hangandi bendi.

Samningurinn er þannig til orðinn, að Heath gabbaði Ólaf og Ólafur gabbaði síðan þjóðina.

Jónas Kristjánsson

Vísir