Fyrsti dagurinn.

Greinar

Fyrsti dagur tvö hundruð mílna fiskveiðilögsögunnar er runninn upp. Lokaskrefið í útfærslu lögsögunnar hefur verið stigið. Í nótt margfölduðust að viðáttu hafsvæði þau, sem við helgum okkur. Síðasta landhelgisorrustan er hafin.

Greinilega hefur komið í ljós að undanförnu, að þau ríki, sem harðast hafa gengið að Íslandsmiðum, eru ekki á þeim buxunum að viðurkenna einhliða útfærslu lögsögunnar. Þau munu láta togara sina veiða eftir föngum innan 200 mílna markanna og raunar einnig innan 50 mílna markanna.

Við eigum engan annan kost en að verjast eftir getu. Traust okkur setjum við á skipstjórnarmenn og aðra starfsmenn Landhelgisgæzlunnar, sem nú þurfa að verja þrefalt til fjórfalt stærra hafsvæði en áður.

Möguleikar gæzlunnar til varna á þessu mikla svæði eru takmarkaðir. Skipstjórnarmenn gæzlunnar eru þó ákveðnir í að láta hvergi deigan síga og að standa sig eftir föngum í baráttunni fyrir land og þjóð. Samkvæmt fyrri reynslu er líklegt, að þeir setji sig og menn sina í lífshættu í skyldustörfum sínum.

Landhelgisgæzlan hefur eflzt verulega á undanförnum árum. En sú efling er ekki nægileg. Að vísu er tækjakostur hennar meiri en unnt er að nýta til fulls. En ekki hefur verið séð nægilega fyrir mannafla og rekstrarvörum til að halda uppi þeirri gæzlu, sem tækjakosturinn gefur tilefni til.

Hafi stjórnvöld í alvöru hugsað sér að kaupa nýja gæzluflugvél, meðan ekki eru til skiptiáhafnir á þá vél, sem fyrir er, né á stóru og fullkomnu varðskipin, þá er ekki valin rétt leið til eflingar Landhelgisgæzlunnar.

Miklu hagkvæmara er að nota flugvélarkaupaféð til að kosta fullan rekstur skipanna og flugvélarinnar, sem fyrir eru, heldur en að gæzlan standi uppi rekstrarfjárlaus. Raunar færi ekki nema lítill hluti flugvélarverðsins til að auka úthald skipa og flugvéla, ekki sízt ef svartolía væri notuð á skipin eins og ætti að gera.

Yfirstjórn Landhelgisgæzlunnar og önnur viðkomandi stjórnvöld gerðu vel í að taka margendurteknum ábendingum um þessi efni. Við kunnum að vera of fátæk þjóð til að kaupa aðra gæzluflugvél, en við erum meira en nægilega rík þjóð til að halda gæzlutækjunum út til fulls, ef við spörum okkur við- bótarflugvél.

Við verðum að gera ráð fyrir dýru og langvinnu þorskastríði að þessu sinni. Þjóðin stendur sem einn maður að harðri stefnu í landhelgismálinu, því að hafréttarráðstefnan hefur þegar sýnt, að 200 mílna efnahagslögsaga er eðlileg að mati mikils meirihluta ríkja heims.

Við getum öll tekið undir orð Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í útvarpinu í gærkvöldi, er hann sagði: “Við munum ekki gera neina samninga, sem ekki eru í fullu samræmi við hagsmuni okkar og annað hvort munum við semja til sigurs eða, ef það verður hlutskipti okkar, berjast til sigurs.”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið