Kjarasamningarnir um helgina voru góðir og skynsamlegir, til sóma öllum þeim, sem að stóðu. Þeir verða á margan hátt taldir til fyrirmyndar, þótt ekki tækist að hindra, að verkfall stæði í tæpar tvær vikur.
Samningarnir drógust á langinn af þremur meginástæðum. Í ífyrsta lagi tóku margir sjálfstæðir aðilar þátt í þeim, til dæmis nærri þrjátíu samtök launþega. Svo umfangsmiklir samningar hljóta að dragast á langinn.
Í öðru lagi voru veigamiklar kerfisbreytingar meðal helztu þátta samninganna. Sett var upp alveg nýtt lífeyriskerfi, sem á að brúa bilið, unz gegnumstreymiskerfi getur endanlega tekið við af uppsöfnunarkerfi. Og uppskurðurinn á sjóðakerfi sjávarútvegsins olli miklum erfiðleikum í samningum um hlutaskipti sjómanna.
Loks var í þriðja lagi ekki um neitt að semja, því að ríkið hefur hirt allar umframkrónur í þjóðfélaginu og ríkisstjórnin hunzað tillögur samningsaðila um samdrátt ríkisbáknsins og lækkun skatta. Launþegar þurftu miklar kjarabætur, sem atvinnuvegirnir gátu engar veitt. Slíkt ástand gerir kjarasamninga að sjálfsögðu einkar erfiða.
Samningarnir voru til fyrirmyndar að því leyti, að deiluaðilar gengu að þeim eins og hverju öðru verkefni, sem leysa þyrfti. Flokkapólitík hljóp ekki í spilið. Báðir aðilar notfærðu sér hagfræðilega þekkingu og voru ekki með nein mannalæti út í bláinn.
Ennfremur voru þeir til fyrirmyndar að því leyti, að þeir spanna yfir öll mikilvrgustu svið atvinnulífsins. Flestir sérhópar voru teknir með í samningunum Og verulegt samræmi var haft milli kjarabreytinga einstakra hópa. Slíkir heildarsamningar eru betri en sérsamningar, þótt þeir taki lengri tíma.
Þá voru samningarnir til fyrirmyndar að því leyti, að allar sérkröfur voru metnar til fjár og ákveðið, hve langt mætti ganga í afgreiðslu þeirra. Fyrir bragðið gátu ákveðnustu þrýstihóparnir ekki hlaupið út undan sér og urðu að halda sér innan ramma heildarinnar.
Loks voru samningarnir til fyrirmyndar að því leyti, að þeir leysa þann vanda, sem verðbólgan hefur skapað ellilífeyrisfólki. Í framtíðinni verður vafalaust litið á þetta sem veigamesta atriði samninganna og eitt af hinum stóru skrefum þjóðarinnar í átt til félagslegs réttlætis.
En samningarnir hafa sína galla, sem ekki eru deiluaðilunum að kenna. Þeir auka ekki kaupmátt almennings, heldur vernda hann aðeins. Þeir gera samt gífurlegar kröfur til greiðslugetu atvinnuveganna, sem eru óvenju illa stæðir um þessar mundir. Samningarnir hljóta að leiða til nýrrar vcrðbólguhrinu á árinu, ekki sízt vegna rauðu strikanna,sem eru eins konar sjálfvirk vísitala.
Þessi vandamál eru fyrst og fremst á verksviði ríkisstjórnarinnar, sem hingað til hefur látið undir höfuð leggjast að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins.
Það, sem aðilar vinnumarkaðsins geta lagað í náinni framtíð, eru vinnuaðferðirnar við gerð kjarasamninga. Síðan samningar urðu jafn umfangsmiklir og raun ber vitni þarf að skipuleggja vinnubrögð á alveg nýjan hátt, svo að framvegis verði búið að semja, áður en verkfall skellur á.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið