Seðlabankinn hefur nú til bráðabirgða bjargað íslenzka þjóðarbúinu frá gjaldþroti. Hefur bankinn í því skyni tekið erlent skyndilán, sem nemur hvorki meira né minna en 7500 milljónum íslenzkra króna. Er þetta mesta lán, sem íslenzkir aðilar hafa tekið.
Seðlabankinn getur tekið þessa upphæð út eftir þörfum á næstu þremur árum og á síðan að endurgreiða hana á næstu þremur árum. Þessu fé á ekki að verja til uppbyggingar, heldur eingöngu til að laga greiðslustöðu þjóðarbúsins út á vlð.
Á knattspyrnumáli heitir þetta að bjarga í horn. Aðgerðin var nauðsynleg til þess, að Íslendingar geti á næstunni staðið við skuldbindingar sínar erlendis og glati ekki lánstrausti sínu. Jafnframt gefur hún stjórnvöldum svigrúm til að taka sig á í fjármálum sínum og þjóðarinnar.
En Seðlabankinn sparar heldur ekki yfirlýsingarnar um, að þetta fé sé ekki útvegað til að gefa stjórnvöldum tækifæri til áframhaldandi óráðsíu í fjármálum. Bankinn segir lánið útvegað “í trausti þess, að íslenzk stjórnvöld láti einskis ófreistað til þess að standa við þessar og aðrar skuldbindingar”.
Í greinargerð bankans fyrir lántökunni er vikið að óhagstæðum ytri skilyrðum, sem eiga þátt í fjárhagsvanda þjóðarinnar. En bankinn lýsir ekki síður sök á hendur stjórnvöldum fyrir sleifarlag í stjórn efnahagsmála og fjármála:
“Sá fjárhagsvandi, sem nú er brýnast að leysa, er hinn mikli halli, sem enn er á ríkisfjármálunum. Hefur greiðsluhalli ríkissjóðs átt verulegan þátt í því að veikja stöðu þjóðarbúsins út á við á undanförnum tveimur árum.”
Í greinargerðinni segir, að fjárlög næsta árs verði að afgreiða hallalaust og auk þess verði að gera ráð fyrir eðlilegum niðurgreiðslum skulda ríkisins víð Seðlabankann, sem hafa á þessu ári aukizt um 3500 milljónir króna. Siðan segir:
“Þessu markmiði verður að ná, enda er óhugsandi, að Seðlabankinn geti fjármagnað frekari hallarekstur ríkissjóðs.”
Í greinargerðinni er einnig bent á, hve óhóflega ríkisvaldið hefur seilzt til fjár fyrir ýmsa sjóði á þess vegum: “Önnur orsök jafnvægisleysis á þessu ári hefur verið ör útlánaaukning fjárfestingarlánasjóða og mikil aukning opinberra framkvæmda, sem fjármagnaðar hafa verið með erlendu lánsfé.”
Enn áminnir Seðlabankinn ríkisstjórn og Alþingi: “Við núverandi efnahagsaðstæður ætti fyrst og fremst að reyna að ná jafnvægi með aðhaldi í opinberum útgjöldum og fjárfestingu, svo að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir þurfi ekki að bitna á greiðslustöðu framleiðsluatvinnuveganna”
Skoðanir Seðlabankans fara alveg saman við þá gagnrýni, sem haldið hefur verið uppi í leiðurum Dagblaðsins að undanförnu á hendur ríkisstjórn og Alþingi fyrir gegndarlaust óhóf í fjármálum ríkis og þjóðar. Þetta óhóf hefur nú leitt til þess, að þjóðin þarf nú að taka 7500 milljón króna skyndilán fyrir salti í grautinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið