Fylgishrun í sjónmáli

Greinar

Hvort sem alþingiskosningar verða í vetur eða næsta vor, má telja víst, að fylgishrun bíði stjórnarflokkanna beggja. Þeir höfðu um tvo þriðju hluta allra atkvæða í síðustu kosningum, en virðast samkvæmt skoðanakönnunum ekki hafa núna nema fylgi helmings kjósenda.

Í skoðanakönnun Dagblaðsins, sem birtist 4. júní í fyrra, var fylgi stjórnarinnar 47% og stjórnarandstöðunnar 53%. Í hliðstæðri könnun, sem birtist í blaðinu 12. maí á þessu ári, var fylgi stjórnarinnar 48% og stjórnarandstöðunnar 52%.

Niðurstöður kannananna eru nánast hinar sömu. Þær eru um leið gerólíkar niðurstöðum síðustu kosninga, þegar stjórnarflokkarnir fengu 68% atkvæða á móti 32% stjórnarandstöðunnar. Gera má þó ráð fyrir, að sveiflan í næstu kosningum verði ekki eins mikil og kannanirnar sýna.

Mikill fjöldi óánægðra flokksmanna snýr aftur til föðurhúsanna, þegar til kastanna kemur í kjörklefanum. Gróin flokkstryggð hefur þá meiri áhrif en óánægjan. Þetta má sjá af því, hversu hægt sveiflur hafa risið og hnigið í atkvæðahlutfalli flokkanna á síðustu áratugum.

Miðað við fyrri reynslu má líta á það sem fylgishrun, ef stjórnmálaflokkur missir einn tíunda hluta fylgis síns í kosningum. Slík minnkun mundi þýða lækkun atkvæðahlutfalls Sjálfstæðisflokksins úr 42,7% í 38,4% og Framsóknarflokksins úr 24,9% í 22,4%. Ekki er fráleitt að ætla, að næsta sveifla verði þessi eða jafnvel heldur meiri.

Í síðustu kosningum var Sjálfstæðisflokkurinn bjartsýnn flokkur á uppleið. Þá var flokkurinn fullur eldmóðs og gerði atrennu að 50% markinu. Hann komst töluvert áleiðis. Sumir fóru að tala um, að tveggja flokka kerfi væri í uppsiglingu, þar sem fylgið mundi skiptast nokkurn veginn jafnt milli Sjálfstæðisflokksins annars vegar og hinna flokkanna hins vegar.

Með ömurlegum stjórnarstörfum frá síðustu kosningum hefur Sjálfstæðisflokkurinn glatað þessu gullna tækifæri. Margir þeir, sem áður voru dyggir stuðningsmenn hans og jafnvel innstu koppar í búri, bölva honum nú í sand og ösku vegna frammistöðunnar í ríkisstjórn. Ekki bætir úr skák, að svonefnt flokkseigendafélag hefur hert tök sín á flokknum.

Slík straumhvörf gæfunnar eru ekki hjá Framsóknarflokknum. Hann var á niðurleið í síðustu kosningum og verður jafnvel á hraðari niðurleið í hinum næstu. Síðast galt hann óvinsælda vinstri stjórnarinnar, en nú geldur hann brasknáttúrunnar, sem almenningur sér, að gegnsýrir valdamiðstöð hans í Reykjavík.

Svo kann að fara, að næst verði Framsóknarflokkurinn að víkja sæti fyrir Alþýðubandalaginu sem næststærsti flokkur landsins. Fátt bendir til, að hreinlætismönnum flokksins takist að þvo óhreinu börnin á brott. Og kjósendur eru alltaf að átta sig betur á, að erfiðara er að henda reiður á Framsóknarflokknum en nokkrum öðrum flokki.

Allt eru þetta vitanlega spár, sem kunna að reynast rangar, ef stjórnmálin taka óvænta stefnu í vetur.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið