Fundið forgangsverkefni

Greinar

Olíuslagurinn í umheiminum veldur því, að Íslendingar verða að fara sinna eigin orkumálum af meiri alvöru. Við höfum að vísu samninga við Sovétríkin um olíukaup. En Sovétríkin eru alls ekki aflögufær á þessu sviði, því að mörg ríki reyna nú að beina olíukaupum sínum til þeirra, síðan Arabar fóru að skammta olíu. Sovétríkin neyðast hagsmuna sinna vegna til að selja mörgum þessara ríkja olíu og geta lent í vandræðum með að hafa undan. Þetta veldur óþægilegri óvissu um framtíð olíuviðskipta okkar.

Við erum ekki sloppnir fyrir horn, þótt Sovétríkin telji sér stjórnmálalega hagkvæmt að halda áfram að selja okkur olíu án skömmtunar næstu árin. Verð á olíu og benzíni hækkar óðum. Sú hækkun getur fljótlega orðið þungur baggi á búskap okkar. Hún er að vísu ekki eins þung og verið er að reyna að gefa í skyn þessa dagana, en hún getur hæglega numið þremur milljörðum króna á ári, áður en öll nótt er úti.

Ríkisstjórnin ætti nú þegar að setja bráðabirgðalög um frestun nýrra framkvæmda á fjárlögum og leggja síðan fram, þegar þing kemur saman í lok þessa mánaðar, breytingartillögur um, að framkvæmdafé ársins verði í sem mestum mæli beint til orkuframkvæmda. Við megum engan tíma missa. Það er forgangsatriði að nýta innlenda orku í stað hinnar ótryggu olíu.

Því miður hefur slaknað á klónni síðustu árin. Sigölduvirkjun er að minnsta kosti einu ári á eftir áætlun. Laxárvirkjun nær ekki þeirri stærð, sem upphaflega var ákveðin. Og látið hefur verið hjá líða að ráðast í smávirkjanir, t.d. á Norðurlandi vestra, sem staðið hafa til um nokkurt skeið. Í staðinn hefur orkufé verið sóað í raflínu milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, þótt fyrirsjáanlegt sé, að línan geti hvorki flutt rafmagn austur né vestur yfir næstu árin.

Nú þarf að hraða Sigölduvirkjun sem mest og stækka jafnframt dreifingarsvæði Landsvirkjunar. Jafnframt þarf að hraða Lagarfossvirkjun, sem gengur allt of hægt, auk þess sem tímabært er orðið að hefja virkjun á Norðurlandi vestra. Síðast en ekki sízt er að verða tímabært að hefja gufuvirkjunina við Kröflu í Þingeyjarsýslu. Þar fæst dýrmætt rafmagn, auk þess sem við verðum að fara að afla okkur reynslu í að nýta jarðhita til framleiðslu á raforku.

Ekki er minni nauðsyn á að hraða hitaveitum, fyrst og fremst framkvæmdunum á Reykjavíkursvæðinu, en einnig í þéttbýli úti um allt land, þar sem kostur er á jarðhita. Í strjálbýli og þar sem erfitt er að ná í jarðhita verður svo raforkan að leysa olíuna af hólmi. Ennfremur er nauðsynlegt að skapa um allt land aðstöðu til notkunar á þriggja fasa rafmagni til framleiðslustarfa.

Jafnframt þurfum við að hefja rannsóknir á því, hvort hagkvæmt geti verið að leggja rafmagnsjárnbrautir hér á landi til að létta á bílaumferðinni, sem er mikill olíusvelgur. Slíkar rannsóknir taka langan tíma og verða því að hefjast strax.

Margvíslegar framkvæmdir á fjárlögum, sem í sjálfu sér eru þarfar, eiga að víkja fyrir þessu forgangsmáli þjóðarinnar, – eigin orkuöflun.

Jónas Kristjánsson

Vísir