Frumvarp í tímahraki

Greinar

Alþýðuflokkurinn getur engan veginn ætlazt til þess af samstjórnarflokkunum, að þeir samþykki efnahagsfrumvarp flokksins áður en fjárlög verða afgreidd. Efnahagsfrumvarpið er viðameira og flóknara en svo, að menn geti tekið afstöðu til þess í fljótu bragði.

Ef Vilmundur Gylfason og aðrir höfundar frumvarpsins fengju sínu framgengt, yrði alþingi að fjalla um það yfir hátíðarnar og taka svo til við fjárlögin í janúar. Að vísu segir ekkert, að slíkt sé bannað, en það stríðir þó gegn hefðbundnum vinnubrögðum á þingi. Föst venja er að staðfesta fjárlög fyrir jól og taka síðan frí.

Segja má, að ástandið sé svo alvarlegt, að að afbrigða sé þörf. En höfundar frumvarpsins hefðu staðið betur að vígi í kapphlaupinu við tímann, ef þeir hefðu sýnt frumvarpið tveim vikum fyrr. Þar með hefðu þeir gefið samstarfsflokkunum örlítið svigrúm til að hugleiða málið fyrir afgreiðslu fjárlaga.

En frumvarpið var bara ekki til fyrir tveim vikum. Það er samið í skyndingu og ber þess raunar nokkur merki. Í því eru ákvæði um breytingu á fjárlögum, sem ekki væri enn búið að samþykkja, ef farið væri eftir kröfum flutningsmanna! Slíkt ósamræmi vekur ekki traust og hvetur samstjórnarflokkana til að flýta sér hægt í málinu.

Við fyrstu sýn virðist efnahagsfrumvarp Alþýðuflokksins vera einkar athyglisvert. Þar er til dæmis skýrt ákvæði um, að ríkisbúskapnum sé haldið innan við 30% af þjóðarbúskapnum. Markmið af þessu tagi hafa ekki áður verið sett fram með jafn skýrum hætti í frumvarpi á alþingi.

Enginn vafi er á, að á þenslutímum er einkar gagnlegt að halda ríkisbúskapnum í skefjum. Þar að auki þrýstir jafnan svo margt á útþenslu ríkisbáknsins, að nauðsynlegt er á öllum tímum að hafa slíkan hemil. Annars linum við aldrei öngþveitið í efnahagsmálunum.

Ástæða er til að fagna tillögu um 3% samdrátt rekstrarútgjalda ríkisins og 10% samdrátt framkvæmdaútgjalda þess. Hins vegar eiga þessi atriði heima í fjárlagafrumvarpinu, úr því að það er ekki enn orðið að lögum.

Í efnahagsfrumvarpinu eru einnig virðingarverðar hugmyndir um, að niðurgreiðslum verði haldið í skefjum, meðal annars með því að hafa útsöluverð ekki lægra en verð til bænda. Á þessu er þegar orðinn mikill misbrestur og hættulegur.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á ákvæði um, að ríkið beiti sér með ýmsum ráðum fyrir því, að fjárfesting í landinu sé jafnan innan við 24,5% af þjóðarframleiðslu. Fjárfestingin er nefnilega allt of þungbær og alls ekki nógu arðbær.

Frumvarpið stefnir að því, að raunvöxtum verði náð árið 1980, aukning peningamagns í umferð verði takmörkuð og að sjálfvirkar útlánareglur verði látnar víkja fyrir arðsemissjónarmiðum. Allt er þetta til mikilla bóta.

Flutningsmenn vilja kjarasáttmála við samtök launþega um 5% kauphækkun á fyrsta ársfjórðungi 1979 og síðan 4% hækkun ársfjórðungslega, auk kaupauka á lægstu laun.

Efnislega hafa viðtökur samstarfsflokkanna verið fremur góðar. Því miður er ekki líklegt, að hugur fylgi máli. Þegar búið verður að fá Alþýðuflokkinn til að staðfesta fjárlögin, er hætt við, að áhugi samstjórnarflokkanna minnki snögglega.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið