Friðrik Ólafsson, forseti Alþjóða skáksambandsins, var næstum einróma kjörinn “maður ársins” á ritstjórn Dagblaðsins að þessu sinni. Það var í ár, að hann náði glæsilegri kosningu í embætti sitt eftir mjög tvísýna stöðu í forvali.
Sem maður ársins fylgir Friðrik í kjölfar Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur og Vilmundar Gylfasonar, sem ritstjórn Dagblaðsins valdi árin 1975 og 1976. Í fyrra náði enginn Íslendingur tilskilinni útkomu í atkvæðagreiðslu ritstjórnar, svo að þá var ekki útnefndur neinn maður ársins.
Friðrik er vel að nafnbótinni kominn. Hann hefur verið í sviðsljósinu í þrjá áratugi og er vel kunnur miklum fjölda Íslendinga. Á þessum tíma hefur hann aflað sér almennra vinsælda, ekki aðeins sem stórmeistari í skák, heldur einnig vegna ljúfmennsku sinnar og annarra mannkosta.
Sama orð fer af honum erlendis. Hvar sem Friðrik hefur teflt á alþjóðlegum mótum, hefur hann vakið athygli keppinautanna, ekki aðeins fyrir frábæra taflmennsku, heldur einnig og ekki síður vegna persónu sinnar. Það er fyrst og fremst vegna þessa, að hann er nú orðinn forseti Alþjóða skáksambandsins.
Í þessu öfluga sambandi hafa magnazt margvíslegar og erfiðar deilur á undanförnum árum. Hinn aldurhnigni, fyrrverandi heimsmeistari í skák, dr. Euwe frá Hollandi, hefur átt erfitt með að hemja þessar deilur.
Litríkir stórmeistarar á borð við Fischer og Kortsnoj hafa valdið deilum. Þar við hefur bætzt spennan milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna og spennan milli Sovétríkjanna og sovézkra flóttamanna.
Til viðbótar þessu hefur svo magnazt spenna milli Evrópu og þriðja heimsins. Skák er að vísu ekki mikið tefld í þriðja heiminum, en skáksamböndin þar eru svo mörg, að þau ráða úrslitum í alþjóðasambandinu.
Þetta olli því, að ráðamenn í skáklífi Evrópu fóru að svipast um eftir manni, sem vildi halda stjórnmálum frá alþjóðlegum skáksamskiptum, væri hvorki hallur undir Sovétríkin né Bandaríkin og vildi halda evrópskum hlutleysishefðum.
Þeir fundu Friðrik. Hann var maðurinn, sem gat sameinað skákhefðina annars vegar og hin nýkomnu vandamál hins vegar. Gligoric frá Júgóslavíu var einnig talinn koma til greina, enda nýtur hann vinsælda og virðingar á borð við Friðrik. Útkoman var sú, að Gligoric féll úr leik og Friðrik hafði síðan sigur með sameinuðum atkvæðum Vestur- og Austur-Evrópu og töluverðum atkvæðafjölda úr þriðja heiminum.
Friðrik á gífurlega erfitt hlutverk fyrir höndum. Hann þarf að leysa vandamál, sem upp komu í heimsmeistaraeinvígi Karpovs og Kortsnojs. Hann þarf að kanna, hvort Fischer er horfinn skáklistinni. Hann þarf að auðvelda þriðja heiminum að komast að í alþjóðlegri hringiðu skákarinnar.
Þetta eru nokkur dæmi um verkefnin. Friðrik gerir sér ljósa grein fyrir þeim og hefur sett sér verkefnaskrá, sem nýtur mikils hljómgrunns í skákheiminum.
Í þessari hljómkviðu eru aðeins tveir falskir tónar, sem fram hafa komið í greinum forseta og varaforseta íslenzka skáksambandsins. Skoðanir þeirra eru sér á parti og hafa ekki hinn minnsta hljómgrunn.
Mikilvægt er, að allir íslenzkir skákmenn og þjóðin öll sameinist um að auðvelda Friðrik verkefni hans og gera íslenzka tímabilið að mikilli uppgangsöld skáklífs í heiminum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið