Í látunum út af vaxandi friðunarhörku sjávarútvegsráðuneytisins síðustu vikur hlýtur Dagblaðið að draga taum Kjartans Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra. Þorskafli verður ekki skertur verulega án þess að það komi víða illa við menn. Neyðaróp hagsmunaaðila eru marklaust innlegg í málið.
Jafnframt þarf að ítreka, að sjávarútvegsráðuneytið friðar þorskinn á rangan hátt. Ráðuneytið gerir sóknarkostnað á aflamagn hærri en hann þyrfti að vera. Það dregur ekki rétta ályktun af þeirri staðreynd, að fiskiskipaflotinn er allt of stór.
Réttmæt er friðun, sem felst i tímabundnum lokunum veiðisvæða vegna uppvaxtar ungfisks, hrygningar eða verndunar hrygningarstofns. Fráleit er hins vegar friðun, sem gerir upp á milli skipategunda eða skipastærða, veiðarfæra eða löndunarhafna, svo og friðun, sem fyrirskipar landlegur á góðum vertíðartíma.
Þegar búið er að ákveða hámarksafla, þarf að huga að því, hvernig ná megi þessum afla sem verðmætustum með sem minnstum mannskap, fæstum skipum, minnstri olíunotkun og öðrum rekstrarkostnaði. Og það gerist ekki með því að jafna aflanum á ýmsan hátt milli skipa, sem eru allt of mörg, heldur með því að fækka skipunum niður í hæfilegan fjölda.
Sjávarútvegsráðuneytið getur látið áætla, hvað góðir skipstjórar með góðar áhafnir þurfi samtals mikinn brúttótonnafjölda í hagkvæmustu skipum til að ná leyfilegum hámarksafla í sem verðmætustu formi. Þennan brúttótonnafjölda í skipum getur ráðuneytið boðið út.
Hæstbjóðendur í veiðileyfi mundu verða vel reknar útgerðir með hagkvæm skip, úrvals skipstjóra og góðar áhafnir. Þessir útgerðarmenn væru ekki í vandræðum með að áætla aukningu aflaverðmætis á skip í kjölfar fækkunar skipa á veiðum. Þeir mundu treysta sér til að bjóða hátt í leyfin.
Auðvitað er hætt við, að sveitarfélög með atvinnuóvissu mundu fjármagna yfirboð lélegrar útgerðar heimamanna. En takmörk eru fyrir því, hve miklu af slíku útsvarsgreiðendur í hyggðarlaginu geta staðið undir. Fljótlega yrði ódýrara fyrir þessi sveitarfélög að semja við vel reknar útgerðir um löndun.
Mikilvægasta forsenda þess, að útgerðarmenn geti áætlað, hversu hátt þeim sé óhætt að bjóða, er, að þeir geti treyjst því, að ríkið taki ekki af þeim hluta teknanna með rangri gengisskráningu. Útboði veiðileyfa, sem hér hefur verið lýst, verður að fylgja frjáls gengisskráning.
Við þessa friðunarleið mundi losna um gífurlega fjárfestingu í skipum, sem reyna mætti að selja úr landi. Jafnframt mundi endurnýjun flotans verða ör, því að samkeppnin mundi knýja menn til að vera alltaf í fremstu röð í skipagerðum. Íslenzk útgerð næði aftur mestu framleiðni í heimi.
Hluti hagnaðarins af aukinni arðsemi í útgerð mundi hafna hjá ríkinu í tekjunum af uppboði veiðileyfa. Þann hagnað má nota til að búa í haginn fyrir iðnað, til dæmis með smíði iðngarða og innflutningi tækni- og rekstrarþekkingar. Þannig mætti hindra, að hið dulda atvinnuleysi, sem nú felst í of stórum flota, breytist í opið atvinnuleysi.
Því miður hafa ráðamenn þjóðarinnar og leiðbeinendur þeirra of þröngan sjóndeildarhring fyrir þessar hugmyndir um sölu veiðileyfa til hæstbjóðandi. Þeir treysta sér ekki einu sinni til að rökræða og gagnrýna þær. Þeir þegja þunnu hljóði og halda áfram gamla krukkinu, til stórtjóns fyrir útgerðina og þjóðfélagið í heild.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið