Frestum gildistöku.

Greinar

Íslenzk stjórnvöld verða að hafa það að leiðarljósi í 200 mílna landhelgissamningum við ríki Efnahagsbandalagsins, að þeir samningar taki ekki gildi, fyrr en Efnahagsbandalagið afléttir refsiaðgerðum gegn. landhelgisstefnu okkar.

Segja má, að við höfum látið leika á okkur í samningunum við Breta og Belga um undanþágurnar frá 50 mílna landhelginni. Þá virtist það koma stjórnvöldum okkar á óvart, að Bretar og Belgar skyldu ekki sjá til þess, að refsiaðgerðum Efnahagsbandalagsins yrði aflétt.

Þessar refsiaðgerðir hafa þegar valdið okkur miklu tjóni og eiga eftir að gera það. Þær fela það í sér, að umsamdar tollaundanþágur á íslenzkum fiskafurðum í löndum Efnahagsbandalagsins taka ekki gildi, fyrr en friður ríkir í landhelgismálum okkar.

Þegar Vestur-Þjóðverjar voru einir eftir í 50 mílna samningunum, notfærðu þeir sér þetta til hins ýtrasta. Þeir vissu það, sem okkar samningamenn virtust ekki átta sig fyllilega á, að refsingum Efnahagsbandalagsins gagnvart okkur yrði ekki aflétt, fyrr en samið yrði við þá um undanþágur

Fyrir bragðið voru þeir hinir hörðust í viðræðunum við okkur. Vafalaust hafa þeir talið, að aflétting refsitollanna yrði nægileg freisting fyrir okkur til að gefast upp í undanþáguviðræðunum við þá. Svo reyndist þó ekki vera og hefur enn ekki verið samið við þá um 50 mílurnar.

Framkoma Vestur-Þjóðverja upp á siðkastið getur bent til þess, að þeir ætli að leika sama leikinn í þetta sinn. Þeir ætli að þvælast fyrir, meðan við erum að semja við Belga og Breta, og veifa síðan refsitollum Efnabagsbandalagsins framan í okkur til að ná hagstæðari samningum fyrir sig.

Við þurfum ekki að kvarta undan Belgum í landhelgissamningum. Síðast gekk greiðlega að semja við þá og allt bendir til þess, að svo verði einnig í þetta sinn. Það gæti því verið freistandi að semja við þá til að sýna, að erlent ríki hafi við urkennt 200 mílna fiskveiðilögsöguna.

En málið er ekki svona einfalt. Svo virðist sem Efnahagsbandalagið líti svo á, að aflétting refsitolla á íslenzkum fiskafurðum sé háð því, að við séum búnir að ná samkomulagi við öll þau ríki bandalagsins, sem hafa hagsmuna að gæta á Íslandsmiðum. Þetta er reglan: Allir fyrir einn og einn fyrir alla.

Þar með þurfum við að beita sömu reglu gagnvart ríkjum Efnahagsbandalagsins. Samningar um 200 mílna fiskveiðilögsöguna mega ekki taka gildi gagnvart neinu ríki þess, fyrr en bandalagið sjálft afléttir refsitollunum.

Belgar verða að skilja, að við álitum þá samábyrga í andstöðu Efnahagsbandalagsins gagnvart okkur og að samningar við þá eina eru næsta gagnslitlir, meðan refsistefna bandalagsins er í fullu gildi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið