Veruleg breyting hefur orðið á íslenzkri þjóðmálaumræðu síðustu tvö árin. Stjórnmálaflokkarnir og stofnanir þeirra eru ekki lengur helzti vettvangur þessarar umræðu. Þingmenn stjórnmálaflokkanna eru ekki lengur helztu þátttakendur hennar.
Á þessum tíma hafa komið til skjalanna nýir menn, sem ekki tala fyrir munn stjórnmálaflokka. Þeir hafa sett fram skoðanir, sem ekki eru steyptar í mót flokkanna. Samanlagt er það töluverður fjöldi manna, sem hefur látið í sér heyra með þessum hætti, og sumir þeirra hafa verið næsta mikilvirkir.
Þessum nýju mönnum og nýju skoðunum fylgir hressandi blær. Við vorum orðin vön flokksstimpli á flestum skoðunum, sem settar voru fram í þjóðmálaumræðunni. Nú er þessi gerilsneyðing að mestu horfin, þótt hún þrauki enn í leiðurum og gagnkvæmu jagi flokksblaðanna.
Þjóðin les ekki leiðarana og hlustar ekki á jagið. Menn hafa á síðustu tveimur árum vanizt nýjum og ferskum skoðunum. Menn hafa áttað sig á, að gamla þjóðmálaumræðan var fremur form en innihald, eins konar menúett sem stjórnmálamennirnir stigu.
Í upphafi þessa breytingatíma bar mest á skrifum um landhelgismál. Í þeim kom fram hörð og stundum markviss ádeila á stjórnvöld. Enginn vafi er á, að þessi umræða knúði ríkisstjórnina að verulegu leyti frá fyrri undanlátssemi gagnvart erlendum hagsmunaaðilum.
Pétur Guðjónsson skrifaði mest og lengst um landhelgismálin. Aðrir menn urðu svo kunnir af öðrum áhugamálum. Kristján Friðriksson rökstuddi auðlindaskatt og nýja iðnaðarstefnu. Aron Guðbrandsson kom með ný viðhorf til samskiptanna við varnarliðið.
Vilmundur Gylfason er orðinn þjóðkunnur maður af skrifum um ýmis mál og mest um dómsmál. Aðrir, áður óþekktir menn, hafa komið enn víðar við og skrifað hárbeitta þjóðfélagsgagnrýni, þar á meðal Reynir Hugason og Leó M. Jónsson.
Ólastaðir eru allir þeir, sem hér verða ekki taldir vegna rúmleysis í stuttum leiðara. Þeir voru sjaldnar á ferðinni, en sýndu eins og hinir að hæfileikar leynast víða með þjóðinni. Allir hafa þessir menn eitthvað að segja, sem þjóðin þurfti að hlusta á og vildi heyra.
Meðan stjórnmálaflokkarnir einokuðu þjóðmálaumræðuna með upphöfnu og innantómu japli, heyrðust hinar nýju skoðanir helzt í hádegisverðarklúbbum, sem reyndu að halda uppi málfundastarfi. Nú eru skoðanirnar hins vegar kunnar alþjóð og er það ekki vonum fyrr.
Dagblaðið er stolt af því að hafa frá upphafi verið afkastamesti og mikilvægasti vettvangur hinnar nýju þjóðmálaumræðu. Fæðing Dagblaðsins fyrir tæpum tveimur árum braut múrana, sem stjórnmálaflokkarnir höfðu reist umhverfis menúett sinn.
Nútímafólk telur engan einn flokk hafa höndlað allan sannleika. Það vill geta gengið í dagblaði sínu að margvíslegum sjónarmiðum, sem stefna öll, þótt ólík séu, að framförum þjóðarinnar. Það hafnar einhliða blekkingum og vill verða alhliða upplýst.
Þannig verður fólk að frjálsum borgurum í frjálsu landi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið