Frelsi Steingríms.

Greinar

Harðnað hefur keppni landsfeðra okkar í kaldrifjuðum ummælum. Í gær voru hér gagnrýnd þau orð Tómasar Árnasonar, að ríkissjóður þyrfti aukna skatta vegna hækkana á olíum og bensíni, sem runnu þó að mestu leyti í ríkissjóð.

Nú hefur Steingrímur Hermannsson reynt að slá flokksbróður sinn út. Hann sagðist fyrir helgina vera varnarlaus gegn hækkun á verði búvöru, þar sem hún væri niðurstaða “frjálsra samninga bænda og neytenda”.

Þetta er óvenju ósvífin fullyrðing. Hvorki samtök neytenda né einstakir hópar þeirra munu kannast við ábyrgð á þessari síðustu hækkun, sem á eftir að valda neytendum og skattgreiðendum miklum búsifjum í vetur.

Í svonefndri sexmannanefnd, sem ákveður búvöruverð, er einn fulltrúi frá samtökum sjómanna og annar frá samtökum iðnaðarmanna. Báðir eru þeir bitlingakarlar, sem aldrei hafa lyft litla fingri í þágu neytenda.

Þessir tveir menn eru flugufótur fullyrðingar Steingríms um, að neytendur hafi sjálfir samið yfir sig búvöruhækkunina. Ábyrgðin hvílir því á samtökum sjómanna og iðnaðarmanna, en ekki á neytendum eða samtökum þeirra.

Sexmannanefnd hefur í nokkur ár unnið skipulega að því að hækka búvörur umfram aðra verðbólgu í landinu. Síðasta hálfa annað árið hefur hún hækkað laun bænda rösklega 13% meira en laun verkamanna hafa hækkað.

Með ýmsu reikningssvindli tókst sexmannanefnd að þessu sinni að koma hækkun búvöru upp í 18-20%. Á sama tíma eru háðar stórstyrjaldir í kaupskipaflotanum, í umbúðagerðum og prentsmiðjum dagblaða um 3% hækkun launa.

Sexmannanefnd setti ekki aðeins nýjar verðbólgutölur inn í reikningsdæmi sitt, heldur breytti hún sjálfu dæminu. Til dæmis gerði hún sérstök hlunnindi járnsmiða í fæðis- og flutningagjaldi að forsendu hækkunar búvöru.

Í allt sumar hefur strangasta aðhaldi verið beitt á vinnumarkaðinum,. svo sem farmenn og grafískir sveinar hafa komizt að raun um. Ríkisstjórnin hefur beitt alþýðusambandinu og vinnuveitendasambandinu fyrir þann plóg.

Þegar ríkisstjórnin leyfir svo sexmannanefnd að sprengja verðbólgurammann, er hætta á, að unnið sé fyrir gýg í aðhaldi á öðrum sviðum. Það er ótrúlegt, að neytendur í alþýðusambandinu láti bjóða sér þetta bótalaust.

Þar á ofan heggur búvöruokrið nærri bændum sjálfum. Menn, velviljaðir landbúnaði, hafa áætlað, að hækkunin muni minnka neyzlu landbúnaðarafurða um nærri 10% og auka þar af leiðandi þörfina á útflutningsuppbótum um fjóra milljarða.

Síðast en ekki sízt nýtur þessi hækkun ekki meirihluta á þingi. Hún var afgreidd með atkvæðagreiðslu í ríkisstjórninni, þar sem ráðherrar Framsóknarflokksins píndu alþýðubandalagsmennina úr 10-12% upp í 18-20%.

Steingrímur Hermannsson landbúnaðarráðherra getur ekki skotið sér á bak við tvo bitlingakarla frá samtökum sjómanna og iðnaðarmanna. Hann barði sjálfur vitleysuna í gegn í ríkisstjórn. Hann jók sjálfur hraða verðbólguhjólsins – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið