Framtíðin blasir við.

Greinar

Dagblaðið er nú komið á tiltölulega lygnan sjó eftir krappa siglingu fram hjá ótal skerjum og boðum. Blaðið hefur aflað sér varanlegrar aðstöðu í tæknibúnaði með samningum við Steindórsprent hf., Hilmi hf. og Árvakur hf., auk þess sem blaðið hefur sjálft keypt ýmis tæki og prentrekstrarvörur. Þetta tðlublað Dagblaðsins er hið fyrsta í hinni nýju vinnslu.

Þannig hefur Dagblaðið skyndilega losnað úr tvöfaldri úlfakreppu, sem fyrri prentsmiðjan, Blaðaprent hf., hafði búið því að undirlagi Vísis. Dagblaðið getur nú í fyrsta skipti á ævinni farið að koma út á réttum tíma og óháð duttlungum hinna dagblaðanna í Blaðaprenti.

Enn mikilvægara er, að hindruð hefur verið tilraunin til stöðvunar útkomu Dagblaðsins. Vísir hafði sett það skilyrði fyrir yfirtöku sinni á Alþýðublaðinu, að Dagblaðinu yrði sparkað úr Blaðaprenti strax um þessi mánaðamót, í þeirri von, að það mundi stöðva útkomu blaðsins. Framkvæmdastjóri Tímans hafði forgöngu um framkvæmd þessa áhugamáls Vísis og Alþýðublaðsins og hafði Þjóðviljaun með sér í eftirdragi.

Allir þessir aðilar höfðu mikinn áhuga á að losa stjórnmálaflokkana við áhyggjur af dagblaði sem var óháð flokkunum. Og hjá Tímanum bættist við gremjan vegna hins mikla samdráttar í sölunni, sem tilkoma Dagblaðsins hafði valdið. Vísir tók á sig tugmilljóna skuldbindingar til þess að tilræðið næði fram að ganga. Allt var þetta samt unnið fyrir gýg og hafa allir aðstandendur tilræðisins í Blaðaprenti ekkert haft fyrir nema skömmina.

Steindórsprent og Dagblaðið hafa í sameiningu sett upp nýtízku smiðju til setningar og umbrots blaðsins. Eru þau tæki öll hin fullkomnustu og eru þar á meðal tvær tölvur. Þá hefur Hilmir hf., sem gefur út Vikuna, tekið að sér mynda- og plötugerð fyrir Dagblaðið.

Síðasta skrefið var svo samningur Dagblaðsins og Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, um prentun Dagblaðsins í prentvél Árvakurs frá og með næsta mánudegi. Dagblaðið mun greiða háar fjárhæðir fyrir þessi afnot. Verðið er samt ekki ósanngjarnt, þegar tekið er tillit til þess, að Dagblaðið sparar sér að sinni kaup á prentvél og flutning hennar flugleiðis til landsins.

Dagblaðið var fyrir viku komið á fremsta hlunn með að flytja fluglciðis til landsins notaða prentvél, sem lá í pakkhúsi í nágrenni New York. Alltaf fylgir nokkur áhætta slíkum kaupum, einkum þegar ekki er unnt að skoða vélina í vinnslu. Enda var hætt við þessi kaup um síðustu helgi, þegar ljóst varð, að samningar mundu takast við Árvakur hf.

Velunnarar Dagblaðsins geta nú loksins verið ókvíðnir um framtíðina. Stjórnmálamenn geta hætt að reyna að hindra útkomu óháðs blaðs. Og starfsmenn blaðsins geta hér eftir einbeitt sér að upphyggingu blaðsins sem fjölmiðils fyrir allan almenning í landinu. Við munum halda áfram ótrauðir á þeirri braut, sem við höfum markað okkur á síðustu fimm mánuðum.

Dagblaðió, það lifi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið