Við vildum gjarna geta skyggnzt inn í framtíðina og kannað, hvað hún ber í skauti sér. Er líklegt, að fiskigengd verði meiri eða minni eftir nokkur ár eða nokkra áratugi, og hve mikil verður breytingin? Hver verður breytingin á mengun sjávar á þessum tíma og hvaða áhrif hefur hún á fiskveiðar okkar? Verða breytingar á neyzluvenjum erlendis og hvernig eigum við að laga okkar fiskiðnað eftir þeim? Verður olíuskortur til að spilla fyrir útgerð vélknúinna fiskiskipa eða jafnvel hindra hana?
Slíkum spurningum vildum við geta svarað á mörgum sviðum. Við komumst næst því með því að gera hagtöluspár fram í tímann. En við höfum eins og aðrir hvað eftir annað rekið okkur á, að því fer fjarri, að þessar spár standist. Þær byggjast jafnan á þróun líðandi stundar og gera ekki ráð fyrir skyndilegum breytingum, sem er lítt eða ógerlegt er að sjá fyrir. Áætlanagerð á Íslandi sem annars staðar er þessum annmarka háð.
Eitt frægasta dæmið um slíkar spár er heimsendaspáin, sem Rómarklúbburinn lét gera og fól í sér þá niðurstöðu, að stöðva yrði hagvöxt hið bráðasta. Síðan hafa aðrir fræðimenn gert þessa spá hlægilega með því að beita sömu reikningsaðferðum við aðstæður á nítjándu öld og sanna með þeim, að mannlíf á jörðinni ætti þegar að vera liðið undir lok. Staðreyndin er sú, að stöðugt eru að koma til sögunnar nýjungar,sem gerbreyta högum mannkyns, án þess að nokkurn hafi órað fyrir þeim áður.
Sumir fræðimenn á þessum sviðum hafa reynt að komast hjá þessum vanda. Þeir áætla tíðni og áhrif hinna óvæntu nýjunga. Og þeir reikna út mismunandi þróunarbrautir, bjartsýnar og svartsýnar, svo að hægt sé að átta sig á mismuninum, sem er á milli þeirra og þeir gefa upp mismunandi möguleika á þróunaráttum, sem sumar hverjar eru gagnstæðar.
Ein kunnasta stofnun á því sviði er Hudson-stofnunin bandaríska, sem gefið hefur út spár um þróun stjórnmála og efnahagsmála til næstu aldamóta. Slíkar spár geta verið hinar gagnlegustu, því að þær gefa til kynna, í hvaða áttir þarf að ýta þróuninni til að forðast hættuástand og koma á hagstæðum skilyrðum. Slíka stofnun ættu Íslendingar að fá til að gera spár um framtíð landsins á næstu áratugum, óveðursský og góðviðrisbólstra á þeirri ferð.
Slíkar spár gætu hjálpað okkur á mörgum sviðum og hindrað okkur í að flana að feigðarósi. Hve mikil áhrif er líklegt, að mengun heimshafanna og ofveiði á Íslandsmiðum hafi á framtíð sjávarútvegs okkar? Og í framhaldi af því, hve stór á fiskiskipafloti okkar að vera? Hvaða stefnu eigum við að hafa í landbúnaði með hliðsjón af afurðagetu landsins og íbúafjölda? Hve mikill má íbúafjöldi landsins verða, án þess að þjóðarhagur hætti að batna, ef tekið er tillit til óvæntra ytri aðstæðna eins og olíuskortsins? Hversu mikið átak eigum við að gera í vistfræðilegum efnum?
Heimsendaspá Rómarklúbbsins gefur okkur tilefni til að gefa framtíðinni betri gaum og fá einhverja vandvirka stofnun á þessu sviði til að benda okkur á hættur og möguleika framtíðarinnar.
Jónas Kristjánsson
Vísir