Margvíslegra og samræmdra aðgerða er þörf, ef takast á að leysa þá hnúta, sem hindra eðlilegan árangur af striti þjóðarinnar. Lækka verður gengið til þess að hækka fiskverðið og breyta hlutaskiptunum útgerðinni í hag, um leið og allt millifærslukerfi fiskvinnslu og fiskveiða verður lagt niður.
Á þessu sviði verður að ganga nógu langt til þess, að kjör sjómanna batni verulega, að útgerðin geti að jafnaði endurnýjað skipastól sinn að þriðjungi af eigin fé og að fiskvinnslan búi við gengi, sem gerir henni kleift að greiða nægilegt fiskverð til að standa undir þessu.
Þessar aðgerðir mundu flytja fjármagn frá öðrum þáttum þjóðlífsins til sjómanna, útgerðar og fiskvinnslu. Þannig nyti sjávarútvegurinn í heild sinna miklu afkasta og losnaði úr ríkisskipulögðum núllrekstri.
Ekki má lengur hvetja til fjárfestingar í landbúnaði og því verður að leggja niður alla fjárfestingarstyrki á því sviði. Jafnframt verður að styrkja bændur til að bregða búi eða færa sig yfir í hagkvæmustu þætti landbúnaðar, svo sem grasrækt til heykögglaframleiðslu.
Niðurgreiðslum verður að breyta í fjölskyldubætur til þess að rétta við verðkerfið í landinu. Beita verður í auknum mæli hinum nýju geymslu aðferðum mjólkur, sem reyndar hafa verið á Selfossi, til þess að samræma framleiðslu og neyzlu mjólkur eftir árstímum.
Síðan ber að leggja niður útflutningsuppbætur og hefja smám saman innflutning þeirra landbúnaðarafurða, sem óhagkvæmast er að framleiða hér, svo sem smjörs og osta.
Iðnaður og verzlun verða að ná jafnrétti á við frumvinnslugreinarnar, einkum í aðgangi að fjármagni og í vaxtakjörum og öðrum lánakjörum. Þetta þýðir nánast, að eðlilegt bankakerfi, eins og í nágrannalöndunum, taki við sjóðakerfi hins opinbera.
Lánastofnanir verða að taka upp á að lána fé eftir traustum arðsemisútreikningum, svo að tryggt sé, að fjármagnið fari þangað, sem það skilar sér aftur á skemmstum tíma. Jafnframt ber að leggja niður þá sjálfvirku gjafasjóði, sem móta íslenzka fjárfestingu um þessar mundir.
Með slíkum aðgerðum ætti að vera auðvelt að spara um tíu milljarða króna á ári hverju á núverandi verðlagi. Ef við mundum nýta okkur fjárfestingu jafnvel til hagvaxtar og Danir gera, mundum við spara þessa upphæð.
Við höfum á undanförnum vikum fylgzt með kjaradeilum, þar sem báðir aðilar höfðu rétt fyrir sér. Hvorki fyrirtækin né heimili launþega gátu lifað við þáverandi launakostnað og launatekjur.
Þetta ömurlega ástand stafar af því, að fjármálakerfi þjóðarinnar er ríkisrekið í öllum megindráttum og atvinnulífið þar með óbeint ríkisrekið.
Með aðgerðum á borð við þær, sem raktar hafa verið hér að ofan, er unnt að höggva á hnútinn og ná báðum markmiðum í senn: Arðbærum at- vinnurekstri og mannsæmandi lífskjörum. Jafnframt mundu batna horfur þjóðarinnar á að verða samkeppnishæf í viðskiptasamfélagi þjóða heimsins.
Jónas Kristjánsson
Vísir