Forsenda og lausnir

Greinar

Barátta Þjóðviljans fyrir innflutningshöftum, sem mundu slíta viðskiptasamningum okkar við efnahagssamtök nágrannaríkjanna, mun ekki bera árangur,enda leynast austrænir hagsmunir að baki. Geir Hallgrímsson forsætisráðherra hefur lýst því yfir, að framhald viðskiptafrelsis verði forsenda aðgerða þeirra, sem væntanlegar eru til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl eftir áföllin í viðskiptakjörum þjóðarinnar á undanförnum mánuðum.

Þjóðviljinn kennir vöruinnflytjendum um gjaldeyrisskortinn. En þeir flytja að sjálfsögðu aðeins inn þær vörur, sem þeir telja sig geta selt. Vandamálið felst í gervivelmegun þeirri, sem hefur ríkt hér í tæpt ár, síðan síðustu skrípa-kjarasamningar voru gerðir. Þetta óeðlilega ástand hefur gert okkur kleift að kaupa erlendar vörur, án þess að þjóðarbúið hafi efni á því.

Lífskjörin hafa verið að versna aftur að undanförnu og eiga eftir að versna enn, áður en þau byrja að batna á nýjan leik, Forsætisráðherra hefur þó sett upp það markmið, að lífskjörin fari ekki niður fyrir það, sem þau voru árið 1972. Sérfræðingar vona, að það nægi til að draga svo úr innlendri eftirspurn, að þjóðarbúið rétti við og á komist greiðslujafnvægi gagnvart útlöndum.

Forustumenn launþegasamtaka vita af reynslu, að þeir geta kúgað atvinnurekendur til að samþykkja launahækkanir. En.þeir vita líka af reynslunni, að lögmál efnahagslífsins taka jafnan í taumana og eyða þeirri aukningu kaupmáttar, sem er umfram getu þjóðarbúsins. Ófriður í kjaramálum hefur ekkert hagnýtt gildi,heldur tefur aðeins fyrir því, að þjóðarbúið komist yfir erfiðleikana og lífskjörin geti byrjað að batna á nýjan leik.

Björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í undirbúningi. Miklu máli skiptir, að í þeim aðgerðum verði ekki litið á einangraðan hátt á einstök vandamál, heldur á heildarsamhengið. Uppbætur eða styrkir til sjávarútvegsins virðast óhugsandi, bæði vegna hagsmuna iðnaðarins, einkum útflutningsiðnaðarins, og einnig vegna þess að ekki má gera sjávarútveginn að ómaga.

Að einhverju leyti getur verðjöfnunarsjóðurinn bætt úr skák, einkum ef lánað væri milli deilda hans, að fenginni ríkisábyrgð fyrir endurgreiðslum. Þessi sjóður er orðinn einn af hornsteinum efnahagskerfisins og á enn eftir að sanna gildi sitt.

Hins vegar virðist ekki ljóst, hvernig komizt verði hjá gengislækkun, þótt talsmenn útgerðarinnar efist um gagnsemi hennar að þessu sinni. Versnandi viðskiptakjör þjóðarinnar gagnvart útlöndum á síðustu mánuðum hafa skekkt gengið verulega. og reynslan segir okkur, að dýrkeypt er að búa of lengi við ranglega skráð gengi og þurfa síðan að taka kollsteypur í gengislækkunum.

Útgerðin hefur sett ríkisstjórninni viku frest til að ákveða ráðstafanir. En ummæli forsætisráðherra benda til þess, að hann láti ekki stilla ríkisstjórninni upp við vegg. Hann vill, að fiskverðið verði fyrst ákveðið, svo að unnt sé að sjá, hve umfangsmikil vandamálin eru á hverju sviði. Strax og fiskverðið er komið getur ríkisstjórnin hafið björgunaraðgerðirnar í áföngum.

Jónas Kristjánsson

Vísir